Innlent

Þriðji maðurinn segist óheppinn gjaldeyrisbraskari

Andri Ólafsson skrifar
Maðurinn sem lengst hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglu á umsvifamiklu fíkniefnamáli segist eingöngu hafa flækst inn í málið þegar hann reyndi að hagnast á gjaldeyrisbraski.

Eins og fréttastofa hefur greint frá eru þrír menn í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Sigurður Ólason, Ársæll Snorrason og Gunnar Viðar Árnason. Sigurður hefur verið lengi undir eftirliti lögreglu eða í meira en eitt ár samkvæmt upplýsingum fréttastofa. Sigurður er umfangsmikill athafnamaður í Reykjavík.

Gunnar Viðar er hins vegar sá sem lengst hefur setið í gæsluvarðhaldi eða síðan 22 maí. Hann var handtekinn eftir að hann sást afhenda meintum höfuðpaurum málsisns Hollendingi og Ísraelsmanni reiðufé. Samkvæmt heimildum fréttastofu var þetta talin vísbending um að Gunnar tengdist inn í umsvifamikið fíkniefnamál sem lögreglan hafði lengi rannsakað og því var óskað eftir gæsluvarðhaldi.

Í yfirheyrslum hefur Gunnar hins vegar þráfaldlega neitað þessu. Hann hefur samkvæmt heimildum borið að hann hafi eingöngu átt í gjaldeyrisviðskiptum við mennina. Gunnar segist hafa orðið sér út um evrur sem hann seldi svo fyrir krónur á hagstæðu verði, í þessu tilfelli fyrir eina milljón króna. Það sé eingöngu óheppileg tilviljun að mennirnir sem keyptu af honum evrunar hafi verið partur af alþjóðlegri fíkniefna og peningaþvættisrannsókn

En það er ekki víst að þessi útskýring Gunnars haldi. Gæsluvarðhaldið yfir honum var til að mynda framlengt í gær en samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur sú ákvörðun verið kærð til Hæstaréttar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×