Lífið

Jackson kvaddur

Janet Jackson ásamt Jackson-bræðrunum sem voru allir klæddir eins í jarðarförinni.fréttablaðið/ap
Janet Jackson ásamt Jackson-bræðrunum sem voru allir klæddir eins í jarðarförinni.fréttablaðið/ap

Fjölskylda og vinir poppkóngsins Michaels Jackson kvöddu hann í hinsta sinn þegar hann var jarðaður í Los Angeles. Á meðal þeirra tvö hundruð gesta sem voru viðstaddir jarðarförina voru Elizabeth Taylor, Macaulay Culkin og upptökustjórinn Quincy Jones. Gladys Knight söng við athöfnina auk þess sem mannréttindafrömuðurinn Al Sharpton hélt ræðu.

Jarðarförin frestaðist um einn klukkutíma vegna þess að fjölskylda Jacksons tafðist. Á endanum mætti hersingin síðan í hverjum bílnum á fætur öðrum, alls 31 talsins. Bræður Jacksons, þeir Randy, Jackie, Tito, Jermaine og Marlon báru kistuna, sem var úr skíra gulli. Allir klæddust þeir svörtum jakkafötum auk þess sem hver og einn var með hvítan hanska á annarri hendi til minningar um bróður sinn. Börn Jacksons, Prince Michael, Paris og Prince Michael II sátu í fremstu röð ásamt afa sínum og ömmu, Katherine og Joe Jackson. Á meðal fleiri gesta voru grínistinn Chris Tucker og Lisa Marie Presley, fyrrverandi eiginkona popparans.

Rúmlega tveir mánuðir eru liðnir síðan Jackson lést úr banvænum skammti lyfseðilsskyldra lyfja, fimmtugur að aldri. Í síðustu viku var úrskurðað að hann hefði verið drepinn og í framhaldinu var hægt að leggja drögin að jarðarförinni, sem fór fram í Forest Lawn-kirkjugarðinum þar sem stjörnur á borð við Humphrey Bogart, Errol Flynn og Clark Gable liggja. Upphaflega átti að jarða Jackson 29. ágúst, sem hefði orðið 51 árs afmælisdagur hans, en því var frestað vegna rannsóknarinnar á dauða hans.

gullkista Michael Jackson var jarðaður í þessari gullkistu, tveimur mánuðum eftir að hann lést úr banvænum lyfjaskammti.fréttablaðið/ap





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.