Erlent

Óeining meðal sómalskra sjóræningja - bresk hjón í haldi

Sómalskur sjóræningi.
Sómalskur sjóræningi.

Sómalskir sjóræningjar sem halda breskum hjónum föngnum sögðu í dag að þau hefðu verið færð á nýjan stað en óeining er á meðal sjóræningjanna samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

Vopnaðir sjóræningjar rændu þeim Paul og Rachel Chandler, bæði um fimmtugt, í vikunni og fóru með þau að ströndum Sómalíu.

Einn sjóræningjanna sagði við Reuters að þeir sættu sig við 7 milljón dollara lausnargjald fyrir hjónin, en aðrir um borð vildu fyrst koma þeim á öruggan stað áður en ákvörðun yrði tekin.

Sjóræningjarnir rændu hjónunum af skútu sem þau sigldu á yfir í stórt gámaskip en þeir leita nú að öruggum stað til þess að setja fólkið á. Einhver óeining er í hópnum sem óttast að reynt verði að bjarga fólkinu.

„Við vorum óánægðir með þá sem tóku breska fólkið. Þetta voru vinir okkar. Við hjálpuðum þeim þegar við héldum að björgunaraðgerð væri yfirvofandi," sagði sjóræninginn Hassan við Reuters.

„En þeir sýndu okkur virðingarleysi fyrir það sem við gerðum. Þeir tóku fólkið í gær, fóru með þau í land og slitu sambandi við okkur. Við höfum varað þá við að þetta muni verða þeim dýrkeypt. Við munum nota alla okkar krafta til þess að hafa upp á þeim ef þeir ætla að skilja sig frá okkur."




Tengdar fréttir

Mannlaus skúta eftir sjórán

Búið er að finna seglskútu breskra hjóna sem sómalskir sjóræningjar rændu fyrr í vikunni. Skútan var mannlaus.

Sjóræningjar hafa bresk hjón í haldi

Sómalskir sjóræningjar hafa lýst á hendur sér mannráni bresku hjónanna Paul og Rachel Chandler sem hurfu sporlaust í siglingu frá Seychelles-eyjum til Tansaníu. Í tilkynningu frá sjóræningjunum segir að þeir hafi náð snekkju hjónanna í Indlandshafi og væru á leið með hana til hafnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×