Innlent

Róleg nótt hjá lögreglu

Nóttin virðist hafa verið róleg hjá lögreglu víða um land. Lögreglan á Suðurnesjum þurfti þó í tvígang að hafa afskipti af fólki á Hafnargötu í Reykjanesbæ vegna slagsmála. Einn var handtekinn í kjölfarið fyrir að fara ekki eftir fyrirmælum lögreglumanna. Þá handtók lögregla ökumann vegna gruns um akstur undir áhrifum amfetamíns.

Á Akureyri fór skemmtanahald vel fram líkt og í fyrrinótt. Lítilsháttar fíkniefni fundust þó á karlmanni en honum var sleppt úr haldi að lokinni skýrslugerð.

Lögreglan á Selfossi stöðvaði fjóra ökumenn sem grunaðir voru ölvun. Þá gisti einn fangageymslur fyrir ölvun og óspektir á Selfossi. Að öðru leyti var rólegt um að vera hjá lögreglumönnum þrátt fyrir að fjöldi fólks hafi verið á ferð um Suðurland um helgina.

Sömu sögu hafði lögreglan á Akranesi, í Borgarnesi, Vestmannaeyjum og Reykjavík að segja. Varðstjóri lögreglunnar í Reykjavík sagði að gott veður hafi yfirleitt afar góð áhrif á fólk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×