Erlent

Áður óbirt myndband með Jackson

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Áður óbirt myndband, sem sýnir Michael Jackson heitinn æfa flutning lagsins This is it, hefur nú litið dagsins ljós.

Það eru Sony Pictures sem opinberuðu myndbandsbútinn sem reyndar er hluti af heimildamynd um poppgoðið sem frumsýnd verður í lok október um allan heim. Þessi 47 sekúndna langi bútur sýnir Jackson á sviðinu þar sem hann æfir sporin fyrir smellinn This is it sem reyndar er kominn til ára sinna og er frá árinu 1983.

Einnig hefur það lekið út að nýtt lag eftir Jackson muni líta dagsins ljós 12. október en það mun bera sama titil, það er að segja This is it. Tveimur vikum síðar kemur út tvöföld geislaplata með helstu lögum úr heimildamyndinni og lofar framleiðandi hennar, John McClain, því að unnendur Jacksons verði engan veginn sviknir af því verki. Plötunni mun fylgja 36 blaðsíðna bæklingur þar sem meðal annars verður að finna áður óbirtar myndir af Jackson á sinni síðustu tónleikaæfingu. Aðdáendur mega því fara að stilla sér upp í röð fyrir framan plötubúðir áður en langt um líður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×