Lífið

Órafmögnuð Lay Low í Flatey

Lay Low í Flatey þar sem upptökur fóru fram bæði innan- og utandyra.
Lay Low í Flatey þar sem upptökur fóru fram bæði innan- og utandyra.

Nýr tvöfaldur diskur með tónlistarkonunni Lay Low kemur að öllum líkindum út hérlendis fyrir jólin og erlendis eftir áramót.

Á fyrri disknum verða sjö lög sem Lay Low tók upp órafmagnað í Flatey um síðustu helgi og á hinum verður DVD-mynddiskur. Tvö laganna eru ný, þar af annað sem hún samdi við ljóðið Sorgin frá árinu 1884 eftir skáldið Undínu, sem hét réttu nafni Helga Steinvör Baldvinsdóttir. Myndatökumenn voru á staðnum sem festu spilamennskuna á filmu og verða þær upptökur á DVD-disknum.

„Okkur langaði að skjóta myndefni með Lovísu að flytja lögin sín og skoðuðum eyna í júní og tókum myndir,“ segir umboðsmaðurinn Kári Sturluson. „Í kjölfarið tókum við þetta lengra og kýldum á upptökur um helgina. Það voru engin tvö lög tekin upp á sama stað og það var tekið upp bæði úti og inni. Í einu lagi spiluðu hænsn ansi stórt hlutverk því þau voru á vappi í kring,“ segir hann. „Flatey á eftir að setja mark sitt á öll lögin því öll stemningin úr eynni smitast inn í upptökurnar. Við tókum þetta þannig upp og ætlum að láta þessar tökur standa.“

Leikstjórinn Denni Karlsson sem vann við heimildarmynd Sigur Rósar, Heima, stjórnaði upptökunum fyrir DVD-diskinn og um kvikmyndatöku sá Víðir Sigurðsson. Hljóðupptaka var í höndum Viðars Hákonar Gíslasonar, eða Vidda í Trabant. freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.