Innlent

Ásmundur sængar ekki með sjálfstæðismönnum

Valur Grettisson skrifar
Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason.

„Tillagan kemur sennilega fram en ég verð ekki á henni," segir þingmaður Vinstri grænna, Ásmundur Einar Daðason, en hann vann að breytingatillögu ásamt Sjálfstæðisflokknum við ESB tillöguna varðandi tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu í Evrópusambandið.

Ásmundur hefur talað gegn aðild að ESB síðan hann var kosinn á þing í vor. Hans afstaða hefur hingað til verið ljós.

Í Fréttablaðinu í dag kom fram að Ásmundur myndi styðja tillögu Sjálfstæðismanna um tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðsluna. Það mun hann gera komi hún fram að hans sögn.

Ásmundur hugðist vera einn af flutningsmönnum tillögunnar en hætti við. Spurður hverju sinnaskiptin sættu svaraði hann því til að hann myndi gera ítarlega grein fyrir afstöðu sinni á þingi í dag.

Eins og Vísir greindi frá í morgun þá standa vonir til um að málið verði afgreitt og umsókn send til Evrópusambandsins í lok júlí.




Tengdar fréttir

ESB umsókn líklegast afhent í lok júlí

Líklegt er að umsókn að Evrópusambandinu verði lögð fram á fundi utanríkisráðherra aðildarríkja sambandsins sem fram fer 27. júlí næstkomandi, samkvæmt heimildum fréttastofu. Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, segir að málið velti allt á því hvernig mál þróast í þinginu.

ESB á dagskrá þingsins í dag

Þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu verður tekin til síðari umræðu í þinginu í dag. Þingfundur hófst klukkan 10:30 og er aðildarályktunin sjötta mál á dagskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×