Innlent

Fékk engin svör frá efnahags- og skattanefnd

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Helgi Áss Grétarsson
Helgi Áss Grétarsson Mynd/Vilhelm
Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur, og einn af talsmönnum InDefence hópsins, sagðist í samtali við Vísi hafa lagt fram spurningu til efnahags- og skattanefndar um það hvort einhverjir sérfræðingar í gjaldþrotarétti hafi verið í íslensku samninganefndinni sem samdi um Icesave samninginn. Að auki lagði hann spurninguna fyrir fjárlaganefnd en hann fékk engin svör frá nefndunum.

Helgi innti nefndirnar eftir svörum við því hvort leitað hafi verið til sérfræðinga í gjaldþrotarétti, en svörin voru af skornum skammti. „Ég trúði því þegar frumvarpið var lagt fram að það sem þar stæði væri satt og rétt. Það er hins vegar sérfræðinga í gjaldþrotarétti að túlka þau ákvæði til hlítar," sagði Helgi Áss.

Á hann þar við það ákvæði í samningnum sem áréttar að tryggingasjóðir landanna þriggja sem um ræðir munu njóta jafnræðis þegar kemur að úthlutun úr búi Landsbankans. Það er að segja að Íslendingar, Bretar og Hollendingar fái upp í kröfur sínar í jöfnum hlutföllum en það er í samræmi við þá túlkun á gjaldþrotalögunum sem almennt hefur verið uppi. Ragnar Hall, hæstaréttarlögmaður, og sérfræðingur í gjaldþrotalögum heldur því fram að gjaldþrotalögin hafi almennt ekki verið túlkuð á þennan hátt.

„Þegar menn taka svona stórt lán og fá kröfu í eins stóru þrotabúi og hér um ræðir þarf að teikna alla atburðarás samninganefndarinnar upp að fullu en það hefur ekki verið gert. Það geta verið ótal málsóknir í gangi og það skiptir mjög miklu máli hvenær útgreiðsla til tryggingasjóðs innistæðueigenda fer fram," sagði Helgi Áss Grétarsson að lokum.






Tengdar fréttir

Fundur fjárlaganefndar og InDefence gekk vel

Fjárlaganefnd og fulltrúar InDefence hópsins funduðu í morgun um frumvarp vegna ríkisábyrgðar á Icesave. Gekk fundurinn vel að sögn Helga Áss Grétarssonar, eins forgöngumanna InDefence. Ásamt Helga sátu fundinn þeir Eiríkur Svavarsson, lögmaður, og Sigurður Hannesson, doktor í stærðfræði. Fundurinn stóð í einn og hálfan tíma.

Skelfileg mistök í Icesave samningnum

Ragnar Hall, hæstaréttarlögmaður, telur skelfileg mistök hafa verið gerð af hálfu Íslendinga við uppgjör á þrotabúi Landsbankans í Icesave samningunum við Breta og Hollendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×