Lífið

Súludans auglýstur í tímariti fyrir unglingsstelpur

þykir það leitt Halldóra Hagalín, ritstjóri Júlíu, segist ekki hafa vitað um efni auglýsingarinnar áður en blaðið fór í prentun.
Fréttablaðið/GVA
þykir það leitt Halldóra Hagalín, ritstjóri Júlíu, segist ekki hafa vitað um efni auglýsingarinnar áður en blaðið fór í prentun. Fréttablaðið/GVA

„Mér þykir þetta leitt og ég sagði þeim að mér þætti auglýsingin ekki viðeigandi, en þau sannfærðu mig,“ segir dansarinn Josy Zareen.

Josy hefur kennt dans á Íslandi frá árinu 2001. Í auglýsingu frá henni í tímaritinu Júlíu, sem kom út í fyrsta skipti í síðustu viku, er súludans auglýstur sem líkamsræktarkostur. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að Júlía er fyrir unglingsstelpur. Tímaritið er gefið út af Birtíngi, sem er eitt stærsta útgáfufélag landsins og gefur meðal annars út Séð og heyrt, Vikuna, Mannlíf og DV.

Halldóra Hagalín, ritstjóri Júlíu, segir að birting auglýsingarinnar hafi verið mistök sem starfsfólk hafi ekki tekið eftir fyrr en blaðið hafði verið prentað. „Ég get ekki beðist afsökunar nógu mikið. Auglýsingin á að sjálfsögðu ekki heima í unglingatímariti,“ segir hún.

Josy er á öðru máli og segir að sölumaður Birtíngs hafi vitað um efni auglýsingarinnar og beinlínis sannfært hana um að birtingin væri viðeigandi, „Hún sagði að mömmurnar myndu lesa blaðið og þess vegna væri í lagi að birta hana,“ segir Josy og bætir við að aldurstakmark sé á súludansnámskeiðin, þó að þau feli ekki í sér nekt.

Ritstjórinn segist hins vegar hafa talið að magadans væri eina viðfangsefni auglýsingar­innar.

„Málið er að efri hluti auglýsingarinnar er fyrir magadanshúsið og neðri hlutinn er þetta pole­fitness sem við höfðum aldrei samþykkt og höfðum ekki hugmynd um að væri í auglýsingunni,“ segir Halldóra. „Við hefðum átt að taka eftir þessu þegar við fengum próförk á tölvutæku formi, en þetta fór framhjá öllum vegna þess að við treystum því að þetta væri magadans.“

Halldóra segir að mistökin séu sérstaklega óheppileg í ljósi þess að þetta var fyrsta tölublaðið og ritstjórnin hafi passað sig á því að birta ekkert stuðandi efni. Sem dæmi nefnir hún að listi yfir tíu boðorð í förðun innihaldi atriði á borð við: „Burstaðu tennurnar“, „borðaðu hollan mat, „þvoðu þér í framan áður en þú ferð að sofa“ og „Ekki kreista bólur“.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.