Innlent

Lausn deilunnar um Icesave ein af forsendum endurreisnar

Össur Skarphéðinsson, utanríkis- og iðnaðarráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkis- og iðnaðarráðherra.
Að mati núverandi ríkisstjórnarinnar er lausn Icesave-deilunnar með aðstoð

alþjóðasamfélagsins og þeirra ríkja sem næst okkur standa ein af forsendum endurreisnar íslensks efnahagslífs. Þetta kemur fram í svari Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, og birt var á Alþingi í dag.

,,Því má ekki gleyma að samkvæmt hinum umsömdu viðmiðum sem samþykkt voru í Brussel skal í viðræðunum ,,tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt“. Verði slíkt ekki gert munu samningar ekki nást," segir Össur í svarinu.

Siv spurði Össur hvort hann hefði látið skoða á innlendum eða erlendum vettvangi hvort Íslendingum beri lagaleg skylda til að greiða Icesave-ábyrgðirnar. Jafnframt hvert mat hans væri á stöðu Íslands ef Íslendingar borgi eða borgi ekki ábyrgðirnar.

Össur segir að fyrir liggi allnokkur fjöldi lögfræðilegra álitsgerða sem unnar hafa verið bæði af innlendum og erlendum aðilum að beiðni utanríkisráðuneytisins og á vegum ríkisstjórnarinnar vegna Icesave.

,,Eins liggja fyrir álitsgerðir Breta, Hollendinga og Evrópusambandsins. Í þessum greinargerðum eru reifuð ýmis sjónarmið er lúta að ábyrgð ríkisins. Utanríkisráðuneytið og þau ráðuneyti önnur sem koma að Icesave-viðræðunum hafa kynnt sér efni þessara greinargerða gaumgæfilega og stuðst við þær í viðræðunum. Rétt er að taka fram að þær standa enn yfir og því takmörkunum bundið hversu ítarleg svör er hægt að gefa í svari sem þessu," segir Össur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×