Innlent

Tvö þúsund ásælast Haga

Bónus er ein af verslunum Haga.
Bónus er ein af verslunum Haga.

Viðskiptamaðurinn Guðmundur Franklín Jónsson sagði í viðtali við Egil Helgason í þættinum Silfur Egils í hádeginu að tvö þúsund áhugasamir fjárfestar væru tilbúnir að kaupa Haga.

Guðmundur hefur haldið úti síðunni þjóðarhagur.is þar sem áhugasamir geta skráð sig og lagt fé í púkkið.

Guðmundur er ósáttur við framgöngu Kaupþings í málinu en Hagar eru í gjörgæslumeðferð hjá bankanum. Hann segir feðgana, það er að segja Jóhannes Jónsson og son hans Jón Ásgeir, skulda 1100 milljarða samanlagt og að þeir hafi farið með hvert fyrirtækið á eftir öðru í þrot.

„Við teljum óhæft að það sé endalaust verið að gefa þeim peninga," sagði Guðmundur í viðtalinu við Egil og bætti við að þeir þyrftu aldrei að borga skuldirnar sína á meðan þjóðin þyfti að standa skil á sínu.

Þá sagði Guðmundur einnig að þó skuldir yrðu ekki afskrifaðar þá myndu þær skila sér inn í hærra matvöruverð og það myndi aftur auka verðbólgu.

Eigendur Haga er eignarhaldsfélagið 1998 sem aftur er í eigu Jóhannesar Jónssonar og fjölskyldu. Guðmundur sagði í viðtalinu að skuldir félagsins séu um 50 milljarðar króna.

Þess má geta að forsvarsmenn Haga hafa neitað því alfarið að króna hafi verið afskrifuð af skuldum Haga.

Í viðtalinu skoraði Guðmundur á Jóhannes í Bónus að mæta Agli í Silfri Egils og ræða matvörumarkaðinn. Þess má geta að Egill tók frægt viðtal við son hans Jón Ásgeir stuttu eftir hrun.


Tengdar fréttir

Vilja kaupa Haga

Rúmlega eitthundrað og fimmtíu manns hafa skráð sig fyrir hlut í tilboði sem hópur fjárfesta hyggst gera í Haga. Hópurinn vill að fyrirtækið verði að almenningshlutafélagi og standi vörð um sanngjarna samkeppni í smávöruverslun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×