Viðskipti innlent

Vilja kaupa Haga

Rúmlega eitthundrað og fimmtíu manns hafa skráð sig fyrir hlut í tilboði sem hópur fjárfesta hyggst gera í Haga. Hópurinn vill að fyrirtækið verði að almenningshlutafélagi og standi vörð um sanngjarna samkeppni í smávöruverslun.

Hópurinn sem gengur undir nafninu Þjóðarhagur, birti heilsíðu auglýsingu í Morgunblaðinu í dag undir yfirskriftinni viltu vera með. Ekki er vitað hverjir standa á bak við þetta en í auglýsingunni segir að þetta sé hópur fjárfesta sem vilji gera Nýja Kaupþingi tilboð í Haga þegar hluturinn fari í almenna sölu.

Eignarhaldsfélagið 1998 sem á Haga, sem rekur m.a. Hagkaup og Bónus, skuldar Kaupþingi 48 milljarða króna. Endurskipulagning á eignarhaldi Haga hefur staðið yfir undanfarið. Í samkomulagi bankans við 1998 hefur falist að Kaupþing eignist 40% í Högum og Jón Ásgeir Jóhannesson og viðskiptafélagar hans 60% gegn því að leggja fram sjö milljarða króna. Til þess hafa þeir nokkrar vikur.

Þjóðarhagur vill gefa starfsfólki Haga og landsmönnum tækifæri til að eignast hlut í fyrirtækinu. Í auglýsingunni kemur fram að allir sem hafi áhuga geti tekið þátt og þar með tryggt að fyrirtækið fari í hendur almennings. Markmiðið sé að gera fyrirtækið að almenningshlutafélagi og standa vörð um sanngjarna samkeppni. Lágmarkshlutur er á 5000 krónur.

Rétt fyrir hádegi höfðu rúmlega 150 manns skráð sig fyrir hlut inni á vefsíðunni thjodarhagur.is.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×