Erlent

Lýtaaðgerð fyrir atvinnuviðtalið

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Undir hnífinn. Sá sem þarna liggur er hugsanlega á leið beint í atvinnuviðtal úr aðgerðinni.
Undir hnífinn. Sá sem þarna liggur er hugsanlega á leið beint í atvinnuviðtal úr aðgerðinni. MYND/Reuters

Bandaríkjamenn eru farnir að leggja á sig lýtaaðgerðir til að líta betur út í atvinnuviðtölum og ná þannig forskoti á aðra.

Það er ljóst að virkilega er tekið að harðna á dalnum þegar menn eru farnir að leggjast undir hnífinn fyrir atvinnuviðtöl og myndu margir ef til vill segja að þar þættu sér nú tíðkast hin breiðari spjótin. Þetta er þó sá raunveruleiki sem blasir við atvinnuþyrstum Bandaríkjamönnum sem nú gera bókstaflega allt til að koma sér í vinnu.

Jeff Grabow er tæplega sextugur Los Angeles-búi sem hefur starfað við markaðssetningu tónlistar. Þar, eins og annars staðar, hafa hlutirnir þó gengið frekar hægt undanfarið og nú sér Grabow fram á að lenda fyrr eða síðar í atvinnuviðtali. Hann eyddi því 17.000 dollurum í andlitslyftingu sem hann vonar að lyfti um leið líkunum á vinnu.

Lýtalæknir Grabows segir þetta ekkert einsdæmi. Fólk vilji virðast yngra og ferskara þegar það fer í viðtal. Í því ástandi sem nú ríki sé ekki lengur nóg fyrir fólk að treysta á reynslu sína, menntun og hæfileika heldur þurfi það helst að auki að hafa andlit á við barnsrass.

Þetta styður nýleg könnun samtaka amerískra lýtalækna en þar sögðust 13 prósent þátttakenda myndu gangast undir aðgerð fyrir atvinnuviðtalið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×