Innlent

Biðlistar styttast og staðan er góð

Biðlisti fyrir hjartaþræðingar á Landspítala er nú nær horfinn.
Biðlisti fyrir hjartaþræðingar á Landspítala er nú nær horfinn.

Biðlistar á sjúkrahúsum fyrir nær allar valdar skurðaðgerðir hafa verið að styttast og er staðan almennt góð í þessum mánuði.

Þetta kemur fram í nýjum upplýsingum frá Landlæknisembættinu. Þegar biðlistar síðustu þriggja ára eru bornir saman má sjá að víða hefur góður árangur náðst varðandi styttingu biðlista. Má sem dæmi nefna að langur biðlisti var fyrir hjartaþræðingar á Landspítala á árunum 2007 og 2008 en sá biðlisti er nú nær horfinn.

Enn eru þó biðlistar fyrir tilteknar aðgerðir, svo sem gerviliðaaðgerðir á mjöðm og hné, þrátt fyrir að slíkum skurðaðgerðum hafi fjölgað undanfarin ár.

Á fyrstu níu mánuðum þessa árs voru framkvæmdar 707 liðskiptaaðgerðir á mjöðm á sjúkrahúsum landsins, samanborið við 332 aðgerðir árið 2007. Gerviliðaaðgerðum á hnjám hefur einnig fjölgað umtalsvert á sama tíma.

Biðlisti fyrir augnaðgerðir hefur hins vegar lítið breyst milli ára og eru nú 1.222 einstaklingar skráðir á þann biðlista. Á hverjum tíma bíða því rúmlega þúsund einstaklingar eftir skurðaðgerð á augasteini og hefur svo verið síðastliðin ár þrátt fyrir aukið framboð slíkra aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×