Innlent

Ernir farnir að verpa á Suðurlandi

Varpsvæði arnar hefur stækkað á undanförnum árum en einungis voru um 20 pör á landinu í kringum 1960.mynd/náttúrustofa vesturlands
Varpsvæði arnar hefur stækkað á undanförnum árum en einungis voru um 20 pör á landinu í kringum 1960.mynd/náttúrustofa vesturlands

Arnarungar sem komust á legg í sumar voru 36 og hafa þeir ekki verið fleiri í manna minnum. Íslenski hafarnarstofninn telur nú um 65 pör og urpu 45 þeirra í vor. Varp misfórst hjá 19, þar á meðal hjá parinu sem fylgst var með á vefmyndavél Arnarsetursins.

„Þetta er búið að vera mjög gott ár, ekkert flóknara en það,“ segir Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands. Um ástæður þess að stofninn hafi stækkað segir hann að til dæmis sé minna um skaðsemi af mannavöldum.

„Við vöktum arnarstofninn á hverjum ári og fylgjumst vel með varpi,“ segir Jón Gunnar sem segir að Náttúrufræðistofnun viti vel hvar sé verið að sækja á örninn og hafi gert ráðstafanir vegna þessa á undanförnum árum.

Varpsvæði arna nær nú frá Faxaflóa og vestur og norður um í Húnaflóa. Áður urpu ernir um land allt og var stofninn þá tvisvar til þrisvar sinnum stærri en í dag. Fækkun hófst í kjölfar ofsókna og eitrunar á 19. öld og urðu pörin fæst um 20 í kringum 1960. Nú hafa arnarpör sést í Árnessýslu en þar er ekki viðvarandi varp, að sögn Jóns Gunnars.

Náttúrufræðistofnun Íslands fylgist með arnarstofninum í samvinnu við Fuglaverndar­félag Íslands og Náttúrustofurnar í Stykkishólmi og Bolungarvík.- vspAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.