Innlent

Lífeyrissjóðirnir svipað öflugir og olíusjóðir Norðmanna

Heimir Már Pétursson skrifar
Fjármálaráðherra mælti fyrir mesta kreppu fjárlagafrumvarpi lýðveldistímans á Alþingi í dag þar sem stefnt er að því að minnka hallann á ríkissjóði um hundrað milljarða króna. Ráðherrann segir allar forsendur til að Íslendingar vinni sig út úr vandanum á fjórum árum. Til að mynda séu sjóðir lífeyrissjóðanna svipað öflugir og olíusjóður Norðmanna.

Efnahagshrunið olli miklu tekjufalli hjá ríkissjóði, jók útgjöld til ýmissa mála eins og atvinnuleysistrygginga og kostnað vegna gífurlegrar lántöku, þannig að vaxtakostnaðurinn einn verður um 100 milljarðar króna á næsta ári. Halli fjárlaga síðasta árs var yfir 200 milljarðar og um 180 milljarðar á þessu ári.

Stefnt er að þvi að eyða hallanum á fjárlögum á fjórum árum þar af um 87 milljarða á næsta ári. Þessu á að ná fram með miklum niðurskurði og skattahækkunum, þar sem fjármálaráðherra segir að þeim lægst launuðu verði hlíft mest. Vandi Íslendinga væri vissulega mikill en góðar forsendur til bata og m.a. hefði lágt gengi krónunnar komið útflutningsgreinum og ferðaþjónustu til góða.

Kristján Þór Júlíusson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði að ríkisstjórnin væri að fást við ýmis mál, eins og uppstokkun stjórnarráðsins, sem mættu bíða á þeim óvissutímum sem nú ríktu við uppbyggingu efnahagslífsins. Ríkisstjórninni hafi mistekist að setja fram trúverðuga áætlun í ríkisfjármálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×