Innlent

Stjórnin sögð hefta framþróun

Katrín Júlíusdóttir Iðnaðarráðherra segir ýmis áform uppi í atvinnuuppbyggingu.fréttablaðið/gva
Katrín Júlíusdóttir Iðnaðarráðherra segir ýmis áform uppi í atvinnuuppbyggingu.fréttablaðið/gva

Nei – jú pólitík var í hávegum höfð í umræðum um auðlindir, iðnað og stöðugleikasáttmálann á þingi í gær.

Kristján Þór Júlíusson Sjálfstæðis­flokki fann ríkisstjórninni flest til foráttu enda stæði hún í veginum fyrir atvinnuuppbyggingu með ýmsum aðgerðum síðustu daga og vikur. Stöðugleikasáttmálinn frá því í júní væri í uppnámi og í algjört óefni stefndi.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði lýsingar Kristjáns Þórs fjarri öllu lagi, þær væru svartagallsraus. Unnið væri að fjölda góðra verkefna á sviði atvinnuuppbyggingar á vettvangi stjórnvalda.

Gunnar Bragi Sveinsson og Vigdís Hauksdóttir Framsóknarflokki og Jón Gunnarsson Sjálfstæðisflokki skömmuðust út í stjórnvöld. Sagði Jón meðal annars að ríkisstjórnin væri blind á þau tækifæri sem við blöstu og væri beinlínis að vinna skemmdarverk. Vigdís sagði öll mál í uppnámi hjá ríkisstjórninni.

Björgvin G. Sigurðsson Samfylkingunni sagði rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda verða til um áramót og þá skýrðist hvaða virkjunarmöguleikar væru fyrir hendi.

Lilja Rafney Magnúsdóttir VG sagði tíma stóriðjuuppbyggingar liðinn og Árni Þór Sigurðsson, flokksbróðir hennar, sagði að nýta bæri orkuauðlindirnar á forsendum sjálfbærni. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×