Innlent

Næsta olíuleit út af Norðurlandi

Næsta olíuleitarsvæði Íslendinga á eftir Drekasvæðinu verður skammt undan Norðurlandi, út af Eyjafirði og Skjálfanda, samkvæmt áformum Orkustofnunar.

Orkustofnun skráir Hatton-Rockall suðaustur af Íslandi sem af eitt af framtíðarolíusvæðum landsins. Þrjú önnur ríki gera hins vegar einnig kröfu í Hatton-Rockall landgrunnið og fyrr en þær deilur eru útkljáðar verða Íslendingar að láta sér nægja Drekann austur af landinu og önnur svæði nær Íslandi, eins og setlagasvæði út af Norðurlandi, sem hefur lauslega verið rannsakað.

Kristinn Einarsson, verkefnisstjóri olíuleitar hjá Orkustofnun, segir merki um gasmyndun þar og áhugi sé á að kanna það svæði betur. Svæðið er út af Skjálfanda og Eyjafirði og reyndar óskaði erlent olíufélag fyrir um tuttugu árum um leyfi til að bora þar en fékk synjun frá íslenskum stjórnvöldum. Kristinn segir að hjá Orkustofnun hafi menn verið að einbeita sér að því að bjóða út Drekasvæðið og þegar það sé frá hafi menn áhuga á því að hefjast aftur handa út af Norðurlandi.

Þá hafa bæði íslenskir og norskir jarðfræðingar nefnt þann möguleika að leita norðaustanlands, eins og á Borgarfirði eystra, enda séu vísbendingar um að Jan Mayen hryggurinn teygi sig undir Ísland. Kristinn telur rétt að sjá fyrst hvort eitthvað finnist á Drekanum. Nærtækast sé að leita fyrst að olíu í setlögum sem ekki séu hulin hrauni og fikra sig síðan suður og vestur á bóginn þegar reynsla er komin á það.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×