Lífið

Einar Ágúst skilinn útundan

Hljómsveitin Skítamórall spilar á tuttugu ára afmælistónleikum á Rúbín í október.
Hljómsveitin Skítamórall spilar á tuttugu ára afmælistónleikum á Rúbín í október.

Þrátt fyrir að öllu verði tjaldað til á tuttugu ára afmælistónleikum Skítamórals á Rúbín í Öskjuhlíð 8. október verður fyrrverandi söngvari sveitarinnar, Einar Ágúst Víðisson, ekki á meðal gesta.

Sammi úr Jagúar mun stýra blásaratríói og Roland Hartwell stjórna strengjasveit auk þess sem fleiri gestir leggja sveitinni lið. Alls verða sextán hljóðfæraleikarar sem koma við sögu á tónleikunum en Einar Ágúst fær ekki að vera með. „Það var eiginlega ekki gert,“ segir gítarleikarinn Addi Fannar spurður hvort haft hefði verið samband við Einar. „En það verður gestkvæmt.“ Ekki náðist í Einar Ágúst þegar Fréttablaðið ætlaði að leita eftir viðbrögðum hans.

Tónleikarnir áttu upphaflega að vera í Stúdíó Sýrlandi en Rúbín þótti henta betur, enda er auðveldara að skapa huggulega stemningu þar, því um órafmagnaða tónleika er að ræða. „Þetta er huggulegur staður. Á Rúbín er klettaveggur sem er aðaleinkenni staðarins og það verður örugglega hægt að búa til kósí stemningu,“ segir Addi Fannar. Aðeins um 180 áhorfendum verður hleypt inn á tónleikana, sem verða teknir upp og gefnir út fyrir jól á geisla- og mynddiski. Líklega verða þetta stærstu tónleikarnir í sögu Skítamórals.

„Við höfum verið minna í formlegum tónleikum og meira að sinna dansgeiranum. En við höfum aldrei lagt eins mikið í konsert og núna. Þetta kostar heilan helling en þetta er bara svo gaman. Það er kominn tími á að gera eitthvað sérstakt eftir tuttugu ár.“- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.