Lífið

Ragnheiði Clausen aftur hent út af Facebook

Ragnheiður Clausen efast um að hún nenni aftur á Facebook eftir að hafa verið hent út í annað sinn.Fréttablaðið/Róbert
Ragnheiður Clausen efast um að hún nenni aftur á Facebook eftir að hafa verið hent út í annað sinn.Fréttablaðið/Róbert

„Ég veit ekki hvort það sé Facebook-liðið eða eitthvað fólk sem vill mig burt. Ég hef engar skýringar á þessu og er eiginlega bara þreytt og pirruð. Ég sem hélt að þetta ætti að vera eitthvað gaman,“ segir Ragnheiður Elín Clausen, fyrrum sjónvarpsþula. Henni hefur nú verið hent, aftur, útaf Facebook-vinasamfélaginu án skýringa.

Mikla athygli vakti í júní á þessu ári þegar fjölmiðlar greindu frá því að Ragnheiði hefði verið vísa útaf samskiptavefnum Facebook. Fjöldi fólks skráði sig á stuðningssíðu henni til heiðurs og að endingu fékk Ragnheiður gömlu síðuna sína aftur með ákveðnum skilmálum, meðal annars að hún mætti ekki skrifa athugasemdir hjá öðru fólki. Hún brá því á það ráð að stofna nýja síðu, nú undir nafninu Ragnheiður Elín Clausen Hauksdóttir, en þeirri síðu hefur nú verið lokað. „Og það án viðvörunar, það voru einhverjar viðvaranir á gömlu síðunni um að ég væri að gera eitthvað af mér en síðunni var bara lokað þegar ég var að setja inn ljóð um hund og skrifa um tvö hundruð metra hlaupið hans Usuain Bolt,“ segir Ragnheiður sem kveðst ekki hafa stundað neina auglýsingamennsku né áróður heldur hafi hún einmitt gætt orða sinna.

Ragnheiður tekur reyndar fram að hún hafi slasast fremur illa á ökla í sumar og þurft að vera rúmliggjandi í smá tíma. Þá hafi hún getað fylgst með hvernig annað fólk notaði Facebook og komist að því að notkun hennar væri ekkert öðruvísi en margra annarra þar inni. Ragnheiður efast um að hún muni snúa aftur til leiks á Facebook. „Ég veit ekki hvort ég nenni þessu eitthvað lengur.“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.