Innlent

Hundruð ábendinga vegna bótasvikara

tryggingastofnun Hægt er að beina ábendingum um meint bótasvik úr almannatryggingakerfinu til Tryggingastofnunar. Einnig er hægt að beina ábendingum um meint bótasvik til Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra. Myndin er úr safni og tengist ekki efni fréttarinnar beint. fréttablaðið/pjetur
tryggingastofnun Hægt er að beina ábendingum um meint bótasvik úr almannatryggingakerfinu til Tryggingastofnunar. Einnig er hægt að beina ábendingum um meint bótasvik til Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra. Myndin er úr safni og tengist ekki efni fréttarinnar beint. fréttablaðið/pjetur
Velferð Vel á þriðja hundrað ábendinga um bótasvik hafa borist Vinnumálastofnun og ríkisskattstjóra (RSK) frá því átak þeirra byrjaði í maí. Markmið átaksins er aðallega að vinna gegn svartri vinnu og skattsvikum. Allar ábendingar eru skoðaðar.

„Ábendingarnar varða einstak­linga og allt upp í stórfyrirtæki. Í þeim fyrirtækjum getur síðan verið um að ræða mörg störf,“ segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Hann segir Vinnumálastofnun hafa brugðist við í mörgum tilvikum. Til dæmis með því að taka fólk af greiðsluskrá atvinnutrygginga, en töluverða úrvinnslu þarf í hvert mál, að sögn Gissurar.

En telurðu að það séu margir sem stundi svarta vinnu? „Ég held að það sé töluvert mikið í sam­félaginu af fólki sem vinnur svart og það vinnur gegn grunnstoðum velferðarkerfisins,“ segir Gissur.

Ábendingar til Vinnumála­stofnunar hafa samtals verið 201. Þær voru 55 í maí, 68 í júní og 78 í júlí, fram að gærdeginum. Gissur segir aukninguna milli mánaða aðallega stafa af auglýsinga­herferð sem Vinnumálastofnun fór í til að kynna átakið.

Þó er ljóst að einhverjar ábendingar varða sama einstaklinginn eða fyrirtækið. Á móti séu þó einhverjar ábendingar sem varða marga einstaklinga, segir Gissur.

Ríkisskattstjóri hefur fengið um 70 ábendingar eftir að átakið byrjaði, að sögn Ólafs Jónssonar hjá eftirlitssviði ríkisskattstjóra. Meirihluti þeirra ábendinga sé þó vegna brota á skatta­lög­gjöfinni. Allar ábendingar eru skoðaðar en sem stendur er mikið um sumar­frí hjá deildinni og því ganga málin hægar fyrir sig, samkvæmt Ólafi.

En eru ekki einhverjar ábendingar sem eru uppspuni? „Af þeim sem ég hef skoðað þá virðist ekkert bera með sér annað en að þetta séu allt eðlilegar ábendingar,“ segir Ólafur.

Einnig er hægt að beina ábendingum um meint bótasvik úr almannatryggingakerfinu til Tryggingastofnunar. Það átak hófst síðasta fimmtudag en upp­lýsingar um fjölda þeirra ábendinga fást á næstunni, samkvæmt upplýsingum frá Trygginga­stofnun.vidirp@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×