Innlent

Fyrsta barn ársins fæddist í heimahúsi

Þessi nýfæddu börn tengjast ekki umræddri frétt.
Þessi nýfæddu börn tengjast ekki umræddri frétt.

Fjórar mínútur yfir miðnætti í gærkvöldi fæddist drengur í heimahúsi í Skipholti í Reykjavík. Samkvæmt því sem Vísir kemst næst er þetta fyrsta barn ársins en drengurinn var 16 merkur og rúmlega fjögur kíló. Áslaug Hauksdóttir ljósmóðir sem tók á móti drengnum segir allt hafa gengið eins og í sögu.

„Ég mætti nú ekki fyrr en um 22:00 leytið í gærkvöldi þannig að hún var nú ekki lengi að þessu," segir Áslaug í samtali við Vísi.

Drengurinn er annað barn foreldra sinna og fæddist hann í uppblásinni laug heima hjá sér. „Það var löngu ákveðið að hún myndi fæða heima en hún fæddi fyrra barnið sitt einnig þannig," segir Áslaug.

Tvær systur móðurinnar, pabbinn og litla stelpan þeirra voru viðstödd fæðinguna sem gekk glimrandi að sögn Áslaugar.

„Þetta var alveg yndisleg fæðing og alveg óskaplega fínn strákur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×