Erlent

Bandaríkjaher færir sig inn í þorpin

Bandarískir hermenn í Helmand biðu eftir því að geta farið um borð í þyrlur til að framkvæma árás á fimmtudag. fréttablaðið/ap
Bandarískir hermenn í Helmand biðu eftir því að geta farið um borð í þyrlur til að framkvæma árás á fimmtudag. fréttablaðið/ap

Bandarískir hermenn færðu sig inn í bæi í Suður-Afganistan í gær, á öðrum degi mikillar sóknar gegn uppreisnarmönnum. Lítillar mótstöðu hefur gætt frá yfirvöldum í bæjunum eða talíbönum, sem eru mjög sterkir á þessum slóðum.

Í Pakistan, hinum megin við landamærin, urðu bandarískar eldflaugar sautján talíbönum að bana.

Hernaðaryfirvöld hafa þó sagt að meginmarkmiðið með aðgerðinni sé ekki að drepa og sigra uppreisnarmenn, heldur sé áhersla lögð á að vinna traust almennings. Leitað sé eftir stuðningi öldunga í þorpunum.

Tveir breskir hermenn létu lífið í vegsprengju á fimmtudaginn. Annar þeirra var hershöfðinginn Rupert Thorneloe, en hann er háttsettasti breski hermaðurinn til að láta lífið í stríðinu í Afganistan. Gordon Brown forsætisráðherra og Karl Bretaprins voru meðal þeirra sem vottuðu virðingu sína vegna fráfalls hans.

Enn er leitað að bandarískum hermanni sem var rænt af uppreisnarmönnum í austurhluta landsins á þriðjudag. Fleiri hermenn hafa verið fluttir á svæðið til leitar, sem og þyrlur sem fljúga um svæðið þar sem talið er að honum sé haldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×