Innlent

Tækin af Vellinum víst lífshættuleg

 Varar við notkun bandarískra heimilistækja sem ekki eru framleidd fyrir íslenska rafmagnskerfið.Fréttablaðið/GVA
Varar við notkun bandarískra heimilistækja sem ekki eru framleidd fyrir íslenska rafmagnskerfið.Fréttablaðið/GVA

„Við erum nokkrir starfsmenn Rafiðnaðarsambands Íslands, allir útlærðir fagmenn í faginu, fullkomlega gáttaðir á ábyrgðarlausu svari Jóhanns Ólafssonar, forstöðumanns rafmagnsöryggissviðs Brunamálastofnunar í Fréttablaðinu í dag“, segir í yfirlýsingu sem barst Fréttablaðinu í gær frá Guðmundi Gunnarssyni, formanni Rafiðnaðarsambands Íslands.

Tilefni yfirlýsingar Guðmundar eru orð Jóhanns sem birtust upphaflega í Fréttablaðinu á föstudag um að þótt heimilistæki úr fórum Bandaríkjahers á Miðnesheiði séu ólögleg til notkunar hér á landi séu þau ekki lífshættuleg. Þessi tæki nota aðra rafspennu en notast er við í íslenska rafkerfinu. Nokkuð er um að heimilistæki ofan af varnarsvæðinu gamla sem átti að farga séu komin í notkun utan vallarsvæðisins og þá með spennubreyti.

Guðmundur segir Jóhann gera lítið úr alvarlegum lögbrotum og spyr hvort hann sé fær um að sinna starfi sínu. „Allir fagmenn vita að þessar vélar geta verið undir ákveðnum aðstæðum lífshættulegar og vinna þá á sviði utan lekastraums rofa og eru ekki jarðtengdar. Allir fagmenn vita að lágspennuslys hafa oft mjög alvarlegar og langvarandi afleiðingar. Þetta virðist vera utan fagsviðs forstöðumanns rafmagnseftirlits,“ segir í yfirlýsingu formanns Rafiðnaðarsambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×