Lífið

Syngja fyrir afslappaða þjóð

KK og Maggi Eiríks á blaðamannafundi á Kjarvalsstöðum þar sem nýi Ferðalagapakkinn var kynntur. 
fréttablaðið/vilhelm
KK og Maggi Eiríks á blaðamannafundi á Kjarvalsstöðum þar sem nýi Ferðalagapakkinn var kynntur. fréttablaðið/vilhelm

„Þetta er stuttur og góður túr. Við erum farnir að gera þetta á hverju sumri,“ segir Kristján Kristjánsson, KK, sem er á leið í tónleikaferð um landið með Magga Eiríks. Tilefnið er útgáfa af Ferðalagaplötum þeirra þremur í einum veglegum pakka ásamt söngvabók með öllum textunum og gítargripunum.

Plöturnar þrjár hafa notið gríðarlegra vinsælda í gegnum árin og selst í rúmlega þrjátíu þúsund eintökum. Með KK og Magga Eiríks í för verður skipuleggjandinn Óttar Felix Hauksson. „Við tökum veiðistangirnar með eins og við gerum alltaf. Við höfum reyndar ekki komist í veiði ennþá en við erum bjartsýnir,“ segir KK.

Hann segir rosalega gaman að spila þessi gömlu og góðu íslensku lög fyrir Íslendinga. „Það á sérstaklega vel við á þessum tíma að spila þessi lög. Það er gaman að fara og spila fyrir fólk sem er í fríi og afslappað. Þetta er einhver önnur þjóð sem við höfum ekki séð sem mætir þarna.“

Kristján segist ekki hafa átt von á þessum gríðarlegu vinsældum Ferðalagaplatnanna. „Ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu mikilvæg mörg af þessum lögum væru fyrir fólk. Á útgáfutónleikunum 2003 spiluðum við í BSÍ og þangað kom fólk sem er eldra en ég sem var bara með tárin í augunum.“

Fyrstu tónleikarnir verða í Lindarkirkju í Kópavogi í kvöld en þeir síðustu verða í Úthlíð í Biskupstungum 18. júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.