Innlent

Vera kann að auglýsa þurfi stöðuna

Mun skipa hæstaréttarlögmann sem sérstakan ríkissaksóknara í málefnum sem varða bankahrunið.
fréttablaðið/stefán
Mun skipa hæstaréttarlögmann sem sérstakan ríkissaksóknara í málefnum sem varða bankahrunið. fréttablaðið/stefán

Setja á Björn Bergsson hæstaréttarlögmann sem sérstakan ríkissaksóknara í málum er varða bankahrunið. Ekkert setningarbréf hefur hins vegar verið gefið út en enginn tímarammi verður á skipun hans. Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra gerir ekki ráð fyrir að staðan verði auglýst.

„Ef þú setur einhvern til að fara með eitt einstakt mál þá þarf ekki að auglýsa það. Björn verður settur ríkissaksóknari í einstökum málum en það leysir ekki þá stöðu að ríkissaksóknari er búinn að segja sig frá málaflokknum í heild sinni," segir Ragna.

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari sagði sig frá málefnum er varða bankahrunið 18. maí síðastliðinn þar sem sonur hans var einn af aðalstjórnendum Exista.

Ragna segist vera að vinna að lagabreytingu sem hún kynnir fyrir ríkisstjórninni á morgun þar sem heimilt verður að setja sérstakan ríkissaksóknara sem varðar bankahrunið. Engin lagaheimild er í núgildandi lögum til þess að skipa sérstakan ríkissaksóknara í heilum málaflokki, einungis í einstökum málum, að sögn Rögnu.

Í áliti umboðsmanns Alþingis frá því 29. desember 2008, sem hann tók til athugunar að eigin frumkvæði, um setningu Björns Rúnars Sigurðssonar sem skrifstofustjóra á nýrri efnahags- og alþjóðafjármálaskrifstofu forsætisráðuneytisins, kemur fram að auglýsa hefði þurft stöðuna.

Trausti Fannar Valsson, lektor í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands, segir að við setningu embættismanns sé gert ráð fyrir því að auglýsa þurfi stöðuna en á því séu undantekningar. Fyrst og fremst ef starfið er ekki talið aðalstarf. Það á til dæmis við um setu í nefndum á vegum ríkisins, segir Trausti.

Dómsmálaráðherra gerir hins vegar ráð fyrir að starf sérstaks ríkissaksóknara verði aðalstarf. Enn eigi þó eftir að útfæra það.

Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er mælt fyrir í 24. gr. að leyfilegt sé að setja mann til að gegna embætti um stundarsakir ef embættismaður fellur frá, er fjarverandi vegna veikinda eða af öðrum ástæðum. Þó aldrei lengur en í eitt ár.

„Það hefur ekki verið útilokað að hægt sé að beita þessu ákvæði þótt mér sé ekki kunnugt um að á það hafi reynt. Þar fyrir utan kann að vera eðlilegt að stjórnvöld auglýsi störf til að tryggja vandaða stjórnsýsluhætti og í störfin veljist hæfasti einstaklingurinn," segir Trausti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×