Erlent

Palestína fær aukna stjórn á Vesturbakka

Ungur drengur seldi flugdreka við aðskilnaðarmúr Ísraela á milli Ramallah og Jerúsalem í gær, á sama tíma og tilkynnt var að palestínskar öryggissveitir myndu taka yfir öryggisgæslu í borgunum og tveimur öðrum borgum á Vesturbakkanum. 
Mynd/AP
Ungur drengur seldi flugdreka við aðskilnaðarmúr Ísraela á milli Ramallah og Jerúsalem í gær, á sama tíma og tilkynnt var að palestínskar öryggissveitir myndu taka yfir öryggisgæslu í borgunum og tveimur öðrum borgum á Vesturbakkanum. Mynd/AP

Ísraelskar hersveitir munu minnka viðveru sína og fækka hermönnum í borgunum Kalkíla, Ramallah, Betlehem og Jeríkó á Vesturbakkanum. Palestínskar öryggissveitir munu taka við stjórninni. Greint var frá þessu í gær.

Bandaríkin hafa þjálfað þúsundir hermanna á Vesturbakkanum til að undirbúa stofnun palestínsks ríkis. Geta Palestínumanna til að halda uppi lögum og reglu er mikilvægur þáttur í friðar­viðræðum, því Ísraelar vilja vera þess fullvissir að palestínskt ríki muni ekki ógna öryggi Ísraels.

Talið er að Ísraelar hafi fallist á þetta vegna þrýstings frá Bandaríkjunum. Degi fyrr hafði fundi Benjamins Netan­yahu, forsætisráðherra Ísraels, og George Mitchell, erindreka Bandaríkjanna, sem átti að fara fram í París, verið aflýst. Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur krafist þess að Ísraelar hætti að byggja á landtökusvæðum á Vestur­bakkanum og í austur­hluta Jerúsalem, en Netanyahu hefur sagst vilja halda áfram „eðlilegri uppbyggingu“ á svæðunum. Annað merki um árangur þrýstings frá Bandaríkjunum er að nýlega voru hundruð ísraelskra vegatálma tekin niður.

Khaled Meshaal, pólitískur leiðtogi Hamas-samtakanna, kallaði eftir því í gær að Bandaríkin spiluðu stærra hlutverk í friðarviðræðum fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann sagði Obama hafa tekið fyrsta skrefið í rétta átt en nauðsynlegt væri að Ísraelar afhentu landtökusvæðin sem fyrst, ef Palestína ætti að styðja við friðarsamning. Meshaal er í útlegð í Sýrlandi.

Í gær voru þrjú ár liðin frá því að palestínskir skæruliðar tengdir Hamas-samtökunum rændu nítján ára gömlum ísraelskum hermanni á Gasasvæðinu. Hermaðurinn Gilad Schalit hefur ekki sést síðan og Rauða krossinum hefur verið meinað að hitta hann. Hamas-samtökin hafa á þremur árum sýnt tvær myndbandsupptökur af honum og borið bréf á milli hans og fjölskyldu hans. Fjölskyldan segir þó að ekkert hafi heyrst frá honum síðasta árið.

Samningaviðræður milli Ísraels og Hamas vegna hermannsins hafa runnið út í sandinn, en Hamas-liðar krefjast þess að hundruð palestínskra fanga verði látin laus í skiptum fyrir hermanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×