Fótbolti

Adebayor valinn leikmaður ársins í Afríku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emmanuel Adebayor með viðurkenningu sína í dag.
Emmanuel Adebayor með viðurkenningu sína í dag. Nordic Photos / AFP

Emmanuel Adebayor, leikmaður Arsenal, var í dag kjörinn knattspyrnumaður ársins af afríska knattspyrnusambandinu.

Það erulandsliðsþjálfarar aðildarlandanna 52 sem taka þátt í kjörinu en Adebayor var efstur með 74 stig. Egyptinn Mohamed Aboutrika var í öðru sæti með 53 stig.

Adebayor skoraði 24 mörk fyrir Arsenal á síðasta tímabili í ensku úrvalsdeildinni og fjögur mörk í þremur leikjum með landsliði Tógó í undankeppni HM.

Aboutrika hlaut verðlaun sem besti knattspyrnumaðurinn sem leikur í Afríku en hann spilar með Al Ahly í Egyptalandi. Al Ahly var kjörið félagslið ársins og lið Egyptalands besta landsliðið. Hassan Shehata, landsliðsþjálfari Egypta, var þjálfari ársins.

Salomon Kalou, leikmaður Chelsea og Fílabeinsstrandarinnar, var kjörinn besti ungi leikmaðurinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×