Innlent

Boðið að sýna Fridu í Mexíkó

Frida og Diego Menningarfulltrúi Mexíkó á Norðurlöndunum hreifst af sýningunni Frida… viva la vida.
Mynd/Þjóðleikhúsið
Frida og Diego Menningarfulltrúi Mexíkó á Norðurlöndunum hreifst af sýningunni Frida… viva la vida. Mynd/Þjóðleikhúsið

Leiksýningin Frida… viva la vida verður að öllum líkindum sýnd í Mexíkó á næsta ári. Edgardo Bermejo Mora, menningarfulltrúi Mexíkó á Norðurlöndunum, var viðstaddur frumsýningu verksins á föstudag og varð svo hrifinn að hann ætlar að vinna að því að koma sýningunni á leiklistarhátíðir í Mexíkó. Þá hefur hann boðist til þess að finna þýðanda til að snara verkinu yfir á spænsku.

Atli Rafn Sigurðarson, leikstjóri sýningarinnar, hitti Mora í gær. „Hann kallaði sýninguna mexíkóskustu leiksýningu sem hann hefði séð utan heimalandsins og taldi hana eiga erindi við Mexíkóbúa. Mora er velmetinn rithöfundur og þar að auki menningarfulltrúi sem vinnur við að velja verk inn á sýningar hinna ýmsu hátíða, svo við erum mjög ánægð með þetta,“ segir Atli að vonum stoltur, enda ekki einungis leikstjóri verksins heldur líka eiginmaður höfundar og aðalleikkonu verksins, Brynhildar Guðjónsdóttur.

Atla leiðist ekki tilhugsunin að sýna í Mexíkó. „Það verður súrrealískt að leika þetta fólk, Fridu og Diego, fyrir Mexíkóa. Það má líkja þessu við það ef mexíkóskur leikhópur sýndi víkingaleikrit hér á landi.“- hhs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×