Innlent

Bíða eftir heimtengingum

Rask Reykjavíkurborg ákvað að endurnýja gangstéttir við nokkrar götur í Skerjafirðinum í sumar, og nota veitufyrirtæki tækifærið til að koma lögnum í jörð.Fréttablaðið/GVA
Rask Reykjavíkurborg ákvað að endurnýja gangstéttir við nokkrar götur í Skerjafirðinum í sumar, og nota veitufyrirtæki tækifærið til að koma lögnum í jörð.Fréttablaðið/GVA

Íbúar við Hörpugötu í Reykjavík eru ósáttir við að ekki verði lagður ljósleiðari í hús í götunni þrátt fyrir rask á vegum Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar í götunni. Hverfið er ekki á áætlun ársins segir framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur.

„Við undrumst að gengið sé hálfa leið þegar hægt er, og tækifæri til, að ganga alla leið,“ skrifar Baldvin Gunnar Árnason, íbúi við Hörpugötu, í bréfi til Gagnaveitunnar.

Reykjavíkurborg ákvað að endurnýja gangstéttir við Hörpugötu, Góugötu og Þjórsárgötu og eins og venjan er í slíkum tilvikum nota Orkuveita Reykjavíkur og Gagnaveita Reykjavíkur tækifærið til að leggja þær lagnir sem þarf, segir Birgir Rafn Þráinsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitunnar.

Hann segir að í þessu tilviki hafi verið lagður ljósleiðari undir gangstétt og að lóðarmörkum, en þar sem Orkuveitan hafi ekki endurnýjað leiðslur heim að húsum hafi Gagnaveitan ákveðið að tengja ljósleiðara við húsin síðar.

Birgir segir að þar sem hverfið hafi ekki verið á framkvæmdaáætlun Gagnaveitunnar í ár sé einfaldlega ekki til fé til að leggja ljósleiðara að húsunum. Óverulegur kostnaður sé við að fresta því, og ekki þurfi að raska gangstéttum eða götunni aftur þegar það verði gert.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×