Innlent

Blikur á lofti í ferðaþjónustu - óþolandi seinagangur

Erna Hauksdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Erna Hauksdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Samtök ferðaþjónustunnar hafa miklar áhyggjur af markaðsmálum og skipulagi þeirra í ferðaþjónustu en „óþolandi seinagangur" er á stofnun Íslandsstofu sem taka á við markaðsstarfi greinarinnar, að fram kemur í ályktun Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Miklar blikur eru á lofti í ferðaþjónustu vegna heimskreppunnar og verulegur samdráttur allt í kringum okkur og hætta á að íslensk flugfélög þurfi að draga saman framboð í haust," segir í ályktunni. Ekki dugi að setja skipulagsmál markaðsmála í hverja nefndina á fætur annarri.

„Það er því verið að lama atvinnugreinina sem allir benda nú á sem eina þeirra leiða sem eiga að koma þjóðarbúinu upp úr kreppunni."

Ferðaþjónustan skilaði 110 milljörðum í gjaldeyristekjur á síðasta ári. Aðrar atvinnugreinar njóti sömuleiðis góðs af ferðaþjónustu, að mati samtakanna. Því sé lífsnauðsynlegt að stórefla markaðsstarf erlendis til að hindra mikinn samdrátt frá næsta hausti.

„Ferðaþjónustufyrirtæki óska eftir samstarfi við ríkið með því að leggja fé á móti framlagi ríkisins en með slíku samstarfi er hægt að leggja mikið til þjóðarbúsins," segir í ályktuninni.

Þá telja samtökin mun ódýrara að skapa störf í ferðaþjónustu en í ýmsum öðrum greinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×