Lífið

Týndur sonur Johns Deacon

Róbert Dan (uppi til vinstri) og John Deacon bassaleikari hljómsveitarinnar Queen.
Róbert Dan (uppi til vinstri) og John Deacon bassaleikari hljómsveitarinnar Queen.

„Þetta er ótrúleg tilviljun,“ segir bassaleikarinn Róbert Dan Bergmundsson sem spilar á Queen-tónleikum í Fífunni 12. mars ásamt Magna og kór Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Eftir að hafa rannsakað John Deacon, bassaleikara Queen, til að undirbúa sig fyrir tónleikana komst hann að því að sonur hans heitir Robert Deacon og ber því sömu upphafsstafi og hann, R.D. Ekki nóg með það því þeir eru jafngamlir upp á dag, báðir fæddir 18. júlí 1975. „Ég var að kynna mér gæjann og svo rakst ég allt í einu á þetta,“ segir Róbert Dan. „Þeir kalla mig alltaf Róbert Deacon hér eftir, strákarnir í hljómsveitinni,“ segir hann og hlær.

Róbert grennslaðist nánar fyrir um nafna sinn og komst að því að hann hefur ekki fetað í fótspor föður síns og gerst bassaleikari. „Það væri alveg til að setja punktinn yfir i-ið. Trúlegast er ég bara týndi sonurinn,“ segir hann í léttum dúr.

Eins og flestir áhugamenn um tónlist hefur Róbert hlustað á Queen í gegnum árin en aldrei spáð í bassaleikinn fyrr en nú. „Þegar ég fór að skoða þetta þá er þetta trúlega eitt erfiðasta verkefni sem ég hef ráðist í,“ segir hann og nefnir lýsingarorð á borð við „melódískur“ og „fáránlegur“ um bassaleik Deacons. „Lag eins og Bicycle Race, þar er ekki þessi hefðbundni bassi. Það er eins og annar söngvari sé að verki,“ segir Róbert Dan „Deacon“. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.