Lífið

Drykkur byrlaður

Sönglist Garðar Thór Cortes og Disella Lárusdóttir fara með stóru hlutverkin í Ástardrykknum Mynd Íslenska óperan/Kristján Maack
Sönglist Garðar Thór Cortes og Disella Lárusdóttir fara með stóru hlutverkin í Ástardrykknum Mynd Íslenska óperan/Kristján Maack

Miðasala á Ástardrykkinn, óperusýningu haustsins hjá Íslensku óperunni, hefst í dag kl. 14. Einungis átta sýningar verða á þessari kunnu gamanóperu en frumsýning er í októberlok.

Mikil ásókn var í miða á sýningar Óperunnar í fyrrahaust og má því búast við að miðarnir seljist hratt. Ástardrykkurinn er þekktur meðal áhugamanna um óperur og hefur verið sýndur hér í áður, síðast á vegum Óperunnar veturinn 1997/98 og fyrst á vegum félags óperusöngvara í Tjarnarbíói 1967/8, en frá þeim sýningum spratt Íslenska óperan.

Miðaverð á Ástardrykkinn er óbreytt frá því í fyrra, 5.400 kr. á almennar sýningar. Vert er síðan að minna á að 25 ára og yngri fá sem fyrr 50% afslátt af miðaverði. Ástardrykkurinn var á efnisskrá Óperunnar síðla vetrar en sýningunni var frestað þá af efnahagsástæðum.

Ástardrykkurinn er þekktasta gamanópera Donizetti og gerði hann frægan um alla Evrópu. Hún var frumsýnd 1832 og er eitt af þekktustu verkum hans, en eftir hann liggja 75 óperuverk samin á aðeins 12 árum.

Í verkinu segir frá strák sem vill ná sér í stelpu og þegar allt bregst leitar hann á náðir kuklara nokkurs sem bruggar honum svokallaðan ástardrykk með ýmsum afleiðingum. Að lokum fer þó allt vel, eins og svo oft í óperum, og hin sanna ást sigrar að lokum.

Einvalalið ungra íslenskra söngvara syngur aðalhlutverkin í sýningunni. Með hlutverk unga mannsins, Nemorino, fer Garðar Thór Cortes, með hlutverk ungu stúlkunnar, Adinu, fer Dísella Lárusdóttir, kuklarann Dulcamara syngur Bjarni Thor Kristinsson og í hlutverki keppinautarins Belcore er Ágúst Ólafsson. Með hlutverk vinkonunnar Gianettu fer Hallveig Rúnarsdóttir. Þá syngja þau Þóra Einarsdóttir og Gissur Páll Gissurarson einnig hlutverk Adinu og Nemorino á sýningatímabilinu.

Sama listræna stjórn og stóð að hinni vel heppnuðu uppfærslu á Cosí fan tutte Mozarts í Óperustúdíói Íslensku óperunnar vorið 2008 stendur að uppfærslunni á Ástardrykknum; þau Ágústa Skúladóttir leikstjóri, Guðrún Öyahals leikmyndahönnuður, Katrín Þorvaldsdóttir búningahönnuður og Páll Ragnarsson ljósahönnuður. Hljómsveitarstjóri er líkt og þá Daníel Bjarnason. Þá tekur kór og hljómsveit Íslensku óperunnar ennfremur þátt í sýningunni. Sýningardagsetningar og frekari upplýsingar má finna á www.opera.is.

Ekki er afráðið frekar hvaða verkefni önnur verða á sviði Óperunnar í vetur en samningur hennar við menntamálaráðuneytið rennur út í árslok og hefur ekki verið gengið frá nýjum samningi við sjálfseignarstofnunina við Ingólfsstræti. pbb@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.