Lífið

Íslensk stelpa opnar Lomo-verslun í London

Opna Lomography-verslun Hadda Hreiðarsdóttir og sambýlismaður hennar, Adam Scott, opna fyrstu Lomography-verslunina í London í september.
Opna Lomography-verslun Hadda Hreiðarsdóttir og sambýlismaður hennar, Adam Scott, opna fyrstu Lomography-verslunina í London í september.

Hadda Hreiðarsdóttir mun opna sérstaka Lomography-verslun í miðborg London ásamt sambýlismanni sínum, Adam Scott. Verslunin, sem verður opnuð 10. september og heitir Lomography Gallery Store, London, verður fyrsta sérhæfða Lomography-verslunin í London.

„Ég er viðskiptafræðingur að mennt en sambýlismaður minn er ljósmyndari og hefur mikið verið að vinna fyrir Lomography-fyrirtækið. Búðin verður opnuð í náinni samvinnu við fyrirtækið sjálft og eru til dæmis allar innréttingar smíðaðar í Austurríki, þar sem höfuðstöðvar Lomography eru, og verða sendar hingað yfir til okkar,“ segir Hadda, sem hefur verið búsett í London síðastliðin tvö ár.

Aðspurð segist hún una sér vel í borginni og hafa engan hug á að flytja heim í bráð. „Ég er mjög sátt hérna úti. Ég er líka spennt fyrir opnun búðarinnar, enda hefur það verið draumur lengi að reka mitt eigið fyrirtæki og ráða mér sjálf.“

Verslunin verður á Newburgh Street í miðborg London og verður á þremur hæðum. Verslunin mun einnig hýsa gallerí og samkomustað fyrir aðdáendur Lomo-vélanna þar sem þeir geta hist og spjallað. „Þetta er stórt samfélag fólks. Það er engu líkara en að fólk ánetjist þessu því um leið og það hefur prófað Lomo-vélarnar er ekki aftur snúið. Ég held að sjarminn við þetta sé endurhvarfið til filmunnar, fólk nýtur þess að taka myndir án þess að sjá strax hver útkoman er eins og með digital-myndavélarnar.“ Lomo-vélarnar eiga sér einnig aðdáendur á meðal stjarnanna og nefnir Hadda meðal annars Vladimír Pútín, Meatloaf og meðlimi Radiohead í því samhengi.

Að sögn Höddu verður haldið heljarinnar teiti í tilefni opnunarinnar.

„Það verður rosa veisla. Hljómsveitir munu skemmta gestum og það verða veitingar í boði. Öllum Íslendingum á svæðinu er auðvitað boðið,“ segir Hadda að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.