Innlent

Stal jeppa og ók á lögreglubíl

Fjölmennt lögreglulið af höfuðborgarsvæðinu fann um sexleytið í morgun ölvaðan ökuníðing, sem skömmu áður hafði ekið stolnum jeppa á lögreglubíl og laskað hann verulega. Eigandi jeppans sá fyrir tilviljun undir morgun hvar verið var að aka jeppanum frá heimili hans við Fremra-Stekk í Breiðholti, og hringdi hann þegar á lögreglu. Lögreglubíll í grenndinni hóf eftirför og reyndu lögreglumenn að aka í veg fyrir jeppann og stöðva hann, en bílþjófurinn ók þá á lögreglubílinn og hélt ótrauður áfram út á Breiðholtsbrautina og inn í Seljahverfi þar sem hann nam staðar og tók til fótanna. Lögreglan sendi liðsauka á svæðið og fannst maðurinn nokkru síðar þar sem hann hafði falilð sig i húsagarði. Hann bíður nú yfirheyrslu. Lögreglumennirnir, sem voru í bílnum sem ekið var á, sluppu ómeiddir en bíllinn var dreginn af vettvangi með kranabíl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×