Innlent

Skuldir Hafnarfjarðarbæjar hafa margfaldast

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarfulltrúi.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarfulltrúi.

Skuldir Hafnarfjarðarbæjar hafa aukist um 200% á sex árum og bæjarfélagið er orðið eitt það skuldsettasta á landinu. Þetta segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksinns í Hafnarfirði. Í yfirlýsingu sem Rósa sendi frá sér nú undir kvöld segir að fjárhagsáætlun meirihluta Samfylkingarinnar fyrir árið 2009 sé ófullkomin og full af óvissuþáttum Þetta sé bein afleiðing af glannalegri fjármálastefnu Samfylkingarinnar síðustu 6 árin. Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar var samþykkt á bæjarstjórnarfundi nú undir kvöld

Óvissa um tekjur vegna sölu á HS



Rósa segir meðal annars að í útkomuspá fyrir árið 2008 sé gert ráð fyrir 6 milljarða króna söluhagnaði fyrir hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja. Sú upphæð hafi ekki enn fengist greidd og mikil óvissa ríki um lyktir málsins sem komið sé fyrir dómstóla. Þá segir Rósa að frá árinu 2003, þegar Samfylkingin tók við stjórn bæjarins, hafi skuldir aukist um 22 milljarða króna eða tæplega þrefaldast. Samkvæmt útkomuspá Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2008 hafi skuldbindingar bæjarfélagsins hækkað um 50% milli ára eða um 13 milljarða króna, úr 21 í 34 milljarða. Í stjórnartíð Samfylkingarinnar hafi tekjur bæjarfélagsins einungis dugað fyrir rekstri en framkvæmdir verið fjármagnaðar einungis með lántöku. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 sé ekki gert ráð fyrir neinum niðurskurði í rekstri bæjarins þrátt fyrir lægri tekjur.

Ný lán tekin til allra framkvæmda

Rósa segir að yfirbygging bæjarfélagsins og stjórnsýsla hafi síðastliðin ár þanist út og Samfylkingin hafi sýnt algjört fyrirhyggjuleysi í meðförum fjármuna bæjarins. Þannig hafi það viðgengist í 6 ára stjórnartíð Samfylkingarinnar að verja hagnaði bæjarins til nýrra verkefna og reksturs eingöngu en taka ný lán til allra framkvæmda. Á þessu tímabili hafi skuldir bæjarins aukist um 22 milljarða króna eða 200 % frá árinu 2002. Hafnarfjörður sé nú orðið eitt skuldsettasta bæjarfélag landsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×