Innlent

Árás í Heiðmörk: Refsingu frestað

Heiðmörk.
Heiðmörk. MYNDAnton

Héraðsdómur Reykjaness ákvað í dag að fresta dómi skilorðsbundið yfir þremur sautján ára gömlum stúlkum sem játuðu að hafa ráðist á fjórðu stúlkuna í Heiðmörk í apríl á þessu ári. Haldi stúlkurnar þriggja ára skilorð munu þær ekki þurfa að sæta refsingu vegna árásarinnar. Þær voru hinsvegar dæmdar til þess að greiða sakarkostnað í málinu, tæpar 32 þúsund krónur.

Málið vakti mikla athygli þegar það kom upp á sínum tíma. Systir stúlkunnar sem ráðist var á lýsti hroðalegum líkamlegum sem andlegum áverkum sem stúlkan bar, eftir að ekið var með hana nauðuga frá heimili hennar upp í Heiðmörk og gengið þar í skrokk á henni.




Tengdar fréttir

Getur ekki vikið stúlkunum úr skóla

Stúlkurnar sem stóðu fyrir árásinni í Heiðmörk eru allar nemendur við Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Skólameistari Flensborgar segir málið hins vegar ekki í lögsögu skólans. Hann gæti ekki vikið stúlkunum úr skóla jafnvel þótt hann vildi.

Þrjár stúlkur játuðu árás í Heiðmörk

Þrjár sautján ára stúlkur játuðu fyrir dómi í fyrradag að hafa ráðist á fjórðu stúlkuna í Heiðmörk í apríl á þessu ári. Vegna skýlausra játninga stúlknanna var málið í kjölfarið dómtekið og má búast við dómi á næstu vikum.

Sjö stúlkur börðu 15 ára stúlku í Heiðmörk

Farið var með 15 ára stúlku í Heiðmörk í dag þar sem hún var barin illa. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru árásarmennirnir hópur sjö stúlkna á aldrinum 16 til 17 ára og höfðu tvær þeirra sig hvað mest frammi. Fórnarlamið var skilið eftir við verslunarmiðstöð í Hafnarfirði. Hjá lögreglu fengust þær upplýsingar að rannsókn málsins væri á frumstigi.

Námu fimmtán ára stúlku á brott og börðu í Heiðmörk

Fimmtán ára stúlka var göbbuð upp í bíl við heimili sitt í gær undir þeim formerkjum að hún væri að fara að sættast við stúlku sem hún hafði átt í útistöðum við. Fljótlega komu fimm aðrar stúlkur upp í bílinn, en þar voru tvær fyrir, og óku með hana upp í Heiðmörk. Þar gengu tvær þeirra í skrokk á henni svo stórsér á henni.

Heiðmerkurhrottar kærðir í dag

Stúlkurnar sem námu 15 ára stúlku á brott og börðu í Heiðmörk í gær verða kærðar í dag, segir Hrönn Óskarsdóttir, systir fórnarlambsins. Fjölskyldan hefur fengið afar sterk viðbrögð í kjölfar árásarinnar.

Heiðmerkurhrottarnir ekki yfirheyrðir

Allar stúlkurnar sem hafa verið kærðar fyrir að ganga í skrokk á fimmtán ára stúlku í Heiðmörk í gær gáfu sig fram við lögregluna í hádeginu. Þær fóru síðar án þess að skýrsla væri tekin af þeim. Þegar haft var samband við yfirlögregluþjóninn Friðrik Smára Björgvinsson sagði hann að málið myndi fara sömu leið og sakamál gegn lögráða einstaklingum, enda eru þær sakhæfar. Aftur á móti þarf að kalla til foreldri eða barnaverndaryfirvöld þegar skýrsla er tekin af ungmennum undir átján ára aldri. Fórnalamb stúlknanna er búið að kæra árásina. Skýrslutöku er nýlokið. Stúlkurnar gengu í skrokk á fimmtán ára stelpu í Heiðmörk í gær eftir að hafa lokkað hana upp í bíl. Ástæðan á að hafa verið sú að fórnarlambið á að hafa skrifað eitthvað á netið sem þeim mislíkaði. Samkvæmt heimildum Vísis höfðu tvær stúlkur sig mest frammi í málinu. Reynt var að hafa uppi á foreldrum stúlknanna án árangurs. Báðar stúlkurnar sem eiga að bera höfuðsökina eru nemar í Flensborg.

„Mamma þurfti eiginlega áfallahjálp“

Systir 15 ára stúlku sem var misþyrmt í Heiðmörk í dag af sjö stúlkum segir að móðir sín hafi nánast þurft áfallahjálp eftir að hafa sótt yngstu dóttur sína illa farna af barsmíðum í Hafnarfjörð. „Mamma þurfti eiginlega áfallahjálp eftir að hafa séð hana hana," segir Hrönn Óskarsdóttir, 32 ára gömul systir stúlkunnar sem varð fyrir árásinni.

Hafði áður ráðist á stelpuna

Ein stúlknanna sem réðst að fimmtán ára gamalli stúlku með fólskulegum hætti og lamdi hana í Heiðmörk hefur áður ráðist að stelpunni og lamið hana. Það var fyrir tveimur vikum síðan. Þetta staðfestir Hrönn Óskarsdóttir, systir árásarþolans, í samtali við fréttastofu.

Rannsókn lögreglu á Heiðmerkurárás lokið

Rannsókn lögreglunnnar á fólskulegri árás á unga stúlku í Heiðmörk er lokið og tekin verður ákvörðun um framhald málsins innan skamms, segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×