Innlent

Segir forseta Alþingis taka við fyrirmælum frá Jóhönnu

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason heldur áfram að gagnrýna Guðbjart Hannesson, forseta Alþingis, og segir hann ósjálfstæðan og hafa sýnt að hann eigi ekki síðasta orðið sem forseti heldur Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Í byrjun vikunnar undraðist Björn að Guðbjartur hafi ekki vitað að 60 ár voru liðinn frá því að Alþingi samþykkti inngöngu Íslands í NATÓ. Og þá gagnrýndi Björn Guðbjart fyrir að hafa gleymt sjálfsögðum heillaóskum til nýrra formanna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar við upphaf þingfundar.

Björn segir í pistli á heimasíðu sinni í kvöld að forsætisráðherra vilji ekki umræður um önnur mál en stjórnarskrárfrumvarpið á dagskrá þingsins.

„Er með ólíkindum, að Guðbjartur Hannesson, forseti alþingis, sýni það ósjálfstæði, sem birtist í stjórn hans á fundum þingsins. Hann hefur beinlínis viðurkennt, að eiga þar ekki síðasta orð heldur einhverjir aðrir og síðan hafnar hann öllum óskum um samráð og samvinnu.“

Björn segir að þetta sé þeim mun einkennilegra fyrir þá sök, að frumvarpið, sem Jóhanna vill hafa sem forgangsmál, snúist um að svipta Alþingi stjórnarskrárvaldi.

Áður en Björn tók til máls á Alþingi í dag kom í ljós að enginn flutningsmanna frumvarpsins var í þinghúsinu og var mælst til þess að þeir yrðu við umræðuna.

„Þá kom í ljós, að þrír þeirra voru að búa sig undir sjónvarpsviðræður forystumanna flokkanna. Forseti úrskurðaði, að ég skyldi tala, þrátt fyrir fjarveru þriggja flutningsmanna frumvarpsins. Þótti mér þar gengið fram af ósanngirni og óskynsemi eins og á við um svo margar ákvarðanir forseta þingsins að fyrirmælum Jóhönnu Sigurðardóttur,“ segir Björn.


Tengdar fréttir

Björn gagnrýnir Guðbjart forseta

Björn Bjarnason gagnrýnir Guðbjart Hannesson, forseta Alþingis, og segir hann hafa gleymt sjálfsögðum heillaóskum til nýrra formanna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar við upphaf þingfundar í dag. Auk þess hafi Guðbjartur ekki vitað að fyrir 60 árum hafi Alþingi samþykkt aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×