Erlent

Yahoo kynnir leitarvél handa auglýsendum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Netveitan Yahoo verður æ harðsnúnari í baráttunni um að tryggja auglýsendum aðgang að nákvæmlega rétta markhópnum á Netinu.

Nú duga engir silkihanskar lengur þegar neytendur, auglýsingar og markhóparýni eru annars vegar. Þetta vita auglýsingasálfræðingar Yahoo mætavel og leggja sig í framkróka við að hjálpa kaupendum auglýsenda að ná augum og eyrum nákvæmlega þess hóps sem þeir ætla að höfða til. Auglýsingar kosta peninga, neysluvörur kosta peninga og almenningur á litla eða enga peninga.

Michael Walrath, aðstoðarframkvæmdastjóri auglýsingasölu Yahoo, segir auglýsendur horfa í aurinn sem aldrei fyrr og nú verði hver einasta króna að skila sínu. Í byrjun mars kynnir Yahoo eins konar auglýsingaleitarvél sem mun gera auglýsendum kleift að greina markhópa sína niður í smæstu breytur, hvort sem þar er um að ræða kyn, aldur, háralit eða hvenær fólk er við tölvuskjáinn.

Þannig getur auglýsandinn klæðskerasniðið auglýsingu eða auglýsingaherferð niður í smásmugulegustu atriði og vonandi uppskorið í staðinn hina eftirsóttu athygli neytandans og í framhaldinu jafnvel krónurnar í vasa hans. Markaðurinn er hreinlega alls staðar enda hafa spurnir af þessari nýju þjónustu Yahoo hækkað hlutabréf fyrirtækisins um 3,4 prósent.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×