Innlent

Reyndi að stinga tvo en skar svo sjálfan sig

Lögreglan er á svæðinu núna.
Lögreglan er á svæðinu núna.
Æði rann á mann í heimahúsi við Hverfisgötu á níunda tímanum í kvöld. Íbúi á Hverfisgötu hafði samband við fréttastofu og sagðist hafa séð mann af erlendu bergi brotinn sveifla hnífi í átt að tveimur mönnum og reyna að stinga þá en án árangurs. Mun hann þá hafa hlaupið inn í húsið og skorið sjálfan sig með hnífnum.

„Ég heyrði bara öskur og læti þegar ég var að labba hérna framhjá og sá þá manninn vera að sveifla hníf í átt að tveimur öðrum mönnum. Hann var augljóslega að reyna að stinga þá," sagði íbúinn sem fréttastofa talaði við. Atvikið átti sér stað fyrir utan verslunina Nexus en þar rétt hjá búa nokkrir aðilar af austur-evrópskum uppruna.

Maðurinn hljóp inn í húsið þar sem hann hefur líklegast skorið sjálfan sig. Hjá lögreglu fengust þær upplýsingar að tilkynnt hefði verið um að maður hefði skorið sig. Farið var með hann á slysadeild þar sem gert verður að sárum hans og hann svo líklegast látinn sofa úr sér en hann var í annarlegu ástandi.

Íbúinn sem fréttastofa talaði við sagðist ekki hafa orðið var við læti úr íbúðinni áður. Hann segir að maðurinn hafi verið mjög æstur. „Ég talaði við fólk sem sá meira en ég og það segir að tveir menn hafi komið hlaupandi út úr húsinu og hann alveg brjálaður á eftir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×