Lífið

Ljósið vekur mikla athygli

ólafur arnalds Tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds fær góða dóma fyrir plötu sína Found Songs. fréttablaðið/anton
ólafur arnalds Tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds fær góða dóma fyrir plötu sína Found Songs. fréttablaðið/anton

Nýtt myndband við lag tónlistarmannsins Ólafs Arnalds, Ljósið, hefur vakið gríðarlega athygli víða um heim, sérstaklega á meðal grafískra hönnuða.

„Það var argentínskur hönnuður sem gerði þetta bara frítt. Hann langaði að gera eitthvað og nota lagið og ég fékk að nota myndbandið,“ segir Ólafur. „Þetta er einhver tækni sem hann er að nota til að láta þessi form fylgja hljóði á þennan hátt.“

Myndbandið hefur verið skoðað um tvö hundruð þúsund sinnum á heimasíðu Argentínumannsins auk þess sem fjallað hefur verið um það í fjölmörgum virtum tímaritum um grafíska hönnun.

Þetta er annað myndband Ólafs, sem síðast fékk þýska fyrirtækið Zoon til að gera myndband við lagið 3055 af fyrstu plötu sinni. Ljósið er tekið af nýrri plötu Ólafs, Found Songs, sem kemur út erlendis á mánudaginn en hér heima eftir nokkrar vikur. Platan fær 8 í einkunn af 10 mögulegum á tónlistarsíðunni Drowned in Sound. Á plötunni er safn laga sem Ólafur samdi í vor á óvenjulegan hátt. Hann bjó þau til á píanó, tók upp og gaf út eitt lag á netinu ókeypis á hverjum degi í heila viku. Afraksturinn er að finna á nýju plötunni.

„Mikið hefur verið lagt í fyrri útgáfur Ólafs Arnalds þar sem fjöldi hljóðfæra hefur komið við sögu. Þessi lög eru berstrípuð og laus við allan slíkan óþarfa,“ segir gagnrýnandi Drowned in Sound.

„Vegna hraðans sem þau voru samin á gafst lítill tími til að horfa um öxl og útkoman er safn laga sem eru laus við öll dulargervi og plat. Þau eru byggð upp í kringum ákveðið form en eru samt bæði hrá og tilfinningarík,“ segir hann og bætir við:

„Mikið hefur verið talað um að landslagið á Íslandi skili sér inn í tónlistina þaðan. Ef það er eitthvað af landi Ólafs í þessari tónlist er það hin mikla kyrrð sem þar er að finna. Svona tónlist á maður að hlusta á einn í lestarferð horfandi á landslagið þjóta framhjá glugganum. Með Found Songs hefur Ólafur skapað sitt fallegasta verk til þessa.“

Fram undan hjá Ólafi eru tónleikar á tónleikaröðinni Réttir á Nasa í september. Eftir það spilar hann á tvennum tónleikum í Þýskalandi og Svíþjóð. Hann er sömuleiðis að semja tónlist við ballett hins virta höfundar Wayne McGregor sem hefur starfað lengi fyrir Konunglega ballettinn í Bretlandi. Ballettinn verður frumsýndur í London í október og er þegar uppselt á fyrstu fimm sýningarnar, sem um tíu þúsund manns munu sjá.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.