Lífið

Plötu Jóhanns lekið á netið

Freyr Bjarnason skrifar
Nýjustu plötu Jóhanns hefur verið lekið á netið. Hún var gefin út í aðeins eitt þúsund eintökum.
Nýjustu plötu Jóhanns hefur verið lekið á netið. Hún var gefin út í aðeins eitt þúsund eintökum.
„Þetta kemur mér ekki á óvart. Þetta er bara normið í dag,“ segir tónlistarmaðurinn Jóhann Jóhannsson.

Nýrri plötu hans sem nefnist And in the Endless Pause There Came a Sound of Bees hefur verið lekið á netið. Platan, sem hefur að geyma lög úr teiknimyndinni Varmints, var gefin út í aðeins eitt þúsund eintökum og var seld á tónleikaferð Jóhanns og hljómsveitar hans um Bandaríkin.

Stutt er síðan væntanlegri plötu hljómsveitarinnar Riceboy Sleeps með Jónsa í Sigur Rós og kærasta hans Alex Somers var lekið á netið en nú er röðin komin að Jóhanni, sem er lítið að æsa sig yfir tíðindunum.

„Þetta er eins og að vera ósáttur við veðrið. Svona er ástandið og það er afskaplega lítið sem maður getur gert í því. Ég er bara mjög sáttur ef fólk er að hlusta á tónlistina mína. Ég er fylgjandi því að tónlistarmenn fái borgað fyrir sína vinnu en það er mál sem kemur hlustandanum ekki beint við. Þetta er hlutur sem þarf að vinna í tengslum við það hvernig tónlist er dreift almennt. Það þarf að endurhugsa þennan prósess allan.“

Jóhann var staddur á Íslandi í stuttu stoppi þegar Fréttablaðið ræddi við hann og ætlaði hann að skilja nokkur eintök af plötunni eftir í 12 Tónum fyrir áhugasama.

Næstu tónleikar Jóhanns verða í Belgíu 11. júlí. Þar spilar hann á sólarupprásartónleikum ásamt fjörutíu manna strengjasveit. „Tónleikarnir byrja klukkan 4.30 um morguninn og við spilum á meðan sólin er að rísa upp. Við hlökkum mikið til,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.