Lífið

Með hjálm við píanóið

Píanóleikarinn knái verður fyrsti tónlistarmaðurinn til að spila í nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsinu.fréttablaðið/gva
Píanóleikarinn knái verður fyrsti tónlistarmaðurinn til að spila í nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsinu.fréttablaðið/gva

„Ég held að ég spili með hjálm og ég veit ekki hvort ég þarf að vera með hanska," segir píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson, sem spilar á hálfgerðum vígslutónleikum í nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsinu ásamt hljómsveitinni Hjaltalín. Samtónn, samtök tónlistar­rétthafa, skipuleggja tónleikana sem verða haldnir í hádeginu á mánudaginn. „Ég verð eigin­lega að fá einhvern til að taka þetta upp á filmu. Ég verð að eiga mynd af mér í verkamannagalla að spila Chopin fyrir fólk."

Miklar öryggisráðstafanir hafa verið gerðar vegna tónleikanna og verða hjálmar, stígvél og varúðargallar afhentir við innganginn. Aðeins verður 85 gestum veittur aðgangur sökum öryggisástæðna. „Ég hlakka til að heyra hvernig á eftir að hljóma. Ég er að fara að spila inni í steypu sem á eftir að vera gífurlega hljómmikil og ég á von á því að þetta verði svolítið eins og ég verði rafmagnaður upp," segir Víkingur.

Miklar deilur hafa staðið yfir vegna byggingar hússins og hvort það borgi sig að halda henni áfram vegna efnahagsástandsins. „Þrátt fyrir allan mínusinn í þjóðarbúinu er efnahagslega langhagkvæmast að halda framkvæmdunum áfram. Það má ekki gleyma þeim kostnaði sem hlýst af því að hætta við þetta," segir Víkingur, sem er búsettur í Bretlandi en er í fríi hér á landi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.