Lífið

Leita af dönsurum í Spiral

Halda prufur fyrir dansara
Spiral dansflokkurinn setti upp sýningu í Sundhöll Reykjavíkur í vor. Nú leita stjórnendur flokksins að tíu til tólf dönsurum fyrir komandi vetur.
Halda prufur fyrir dansara Spiral dansflokkurinn setti upp sýningu í Sundhöll Reykjavíkur í vor. Nú leita stjórnendur flokksins að tíu til tólf dönsurum fyrir komandi vetur.

„Við erum komin með skýra stefnu um hvað við ætlum að gera og erum að gera heildstæðara „lúkk“ fyrir hópinn,“ segir Unnur Gísladóttir framkvæmdastýra Spiral, fyrrum stúdentadansflokksins.

Dansflokkurinn leitar nú að skapandi og áhugasömum dönsurum og sviðslistafólki fyrir komandi vetur, en prufur verða haldnar í Borgarleikhúsinu 30. ágúst.

„Við settum upp sýningu í Sundhöll Reykjavíkur í vor og langar að vera með fleiri sýningar í vetur. Við erum að leita eftir ungu fólki með dansmenntun og það væri frábært ef það væri í háskólanum, en dansmenntun er ekki skilyrði þó svo að hún fleyti fólki aðeins lengra,“ útskýrir Unnur.

„Í prufunum verður Gianluca Vincentini, listrænn stjórnandi flokksins, með tíma í módern. Svo verður hugsanlega smá tæknitími og stutt spjall til að heyra hvað fólk hefur fram að færa og hvar áhugi þess liggur. Allir sem sækja um fá að koma í prufu og spreyta sig svo allir hafa sama séns, en þeir styrkir sem við höfum leyfa okkur aðeins að taka inn tíu til tólf manns,“ bætir hún við. Áhugasamir geta sótt um á heimasíðu dansflokksins á spiral.is. -ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.