Lífið

Menntamálaráðherra til Toronto

Á leið til Norður-Ameríku Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, mun kynna íslenskar og norrænar kvikmyndir á vegum norrænu ráðherranefndarinnar.
Á leið til Norður-Ameríku Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, mun kynna íslenskar og norrænar kvikmyndir á vegum norrænu ráðherranefndarinnar.

„Íslenskir skattgreiðendur borga ekki krónu heldur borgar Norræna ráðherranefndin brúsann," segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra.

Hún er á leið til Toronto á kvikmyndahátíðina þar í borg til að kynna og veita norænni kvikmyndagerð brautargengi. Íslendingar eru í forsæti fyrir norrænu ráðherranefndina í ár og var Katrín beðin um að mæta á vegum hennar til Toronto.

„Já, til að sýna að stjórnvöld styddu nú rækilega við bakið á norænni kvikmyndagerð. Enda skilst mér að það sé mjög mikið af merkilegum myndum frá Norðurlöndunum þetta árið," segir Katrín. Og það má til sanns vegar færa; Anti-Christ eftir Lars von Trier, The Good Heart eftir Dag Kára og svo auðvitað Sólskinsdrengurinn í leikstjórn Friðriks Þórs þar sem Kate Winslet verður sögumaður.

Katrín viðurkennir að hún hafi aldrei komið vestur um haf, verandi vinstra megin í hinu pólitíska litrófi hefur Norður-Ameríka ekkert heillað neitt sérstaklega. Þetta sé því í raun tímamótaferð í hennar lífi. Og svo skemmtilega vill til að menntamálaráðherra verður að öllum líkindum í loftinu þann 11. september, þegar öryggisgæsla verður í hámarki enda dagsetningin meitluð í stein vegna árásanna á Tvíburaturnanna fyrir átta árum.

„Já, þetta verður hressandi," segir Katrín sem viðurkennir þó að hún sé spennt fyrir Kanadaferðinni. „Mér skilst að þarna séu sóknarfæri fyrir norræna kvikmyndagerð, að koma henni á framfæri við hinn vestræna heim og það er bara gaman að fá að taka þátt í því."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.