Lífið

Raquela tilnefnd

Kvikmyndir Queen Raquela og Ólafur Jóhannesson.
Kvikmyndir Queen Raquela og Ólafur Jóhannesson.

Kvikmyndin The Amazing Truth About Queen Raquela hefur hlotið tilnefningu í ár til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Leikstjóri og handritshöfundur er Ólafur Jóhannesson, meðhöfundur er Stefan Schaefer og framleiðendur eru þeir Ólafur og Stefan ásamt Helga Sverrissyni og Arleen Cuevas. Alls eru fimm myndir tilnefndar, ein frá hverju Norðurlandi, og eru sigurverðlaunin 350.000 danskar krónur (um 8,7 milljónir íslenskra króna), sem skiptast á milli leikstjóra, handritshöfunda og framleiðenda.

Sjón og varamaður hans, Sif Gunnarsdóttir, sitja í dómnefndinni: Þau segja í umsögn um myndina:

„The Amazing Truth About Queen Raquela er hrífandi og ögrandi kvikmynd sem segir sögu titil­persónunnar, stelpustráks frá Filippseyjum. Á hógværan máta er áhorfandanum boðið inn í veröld Raquelu án fordóma, en þó ekki án þeirrar forvitni sem lífshættir hennar hljóta að vekja. Með því að má út mörk heimildarmyndar og leikinnar myndar hefur leikstjórinn, Ólafur de Fleur Jóhannesson, fundið leið til þess að taka mannlega afstöðu til harðneskjulegs raunveruleika sögupersónunnar um leið og hann nýtur þess að vinna með alla frásagnarmöguleika „góðrar sögu“. Hvort sem Raquela er að selja sig á götunni eða framan við vefmyndavélina til siðlauss fjölskylduföður/klámkóngs í New York, eða sóla sig á ströndinni og versla með vinkonunum, minnir raunsæ og vonglöð afstaða Drottningarinnar til lífsins okkur á, að það er ekki okkar að dæma hvort líf annarra er þess virði að lifa því.“

Þær fjórar myndir sem eru að auki tilnefndar eru:

Frá Danmörku, Andkristur (Anti­christ), leikstjóri og handrits­höfundur Lars von Trier og framleiðandi Meta Louise Foldager (Zentropa).

Frá Finnlandi, Sána (Sauna), leikstjóri AJ Annila, handritshöfundur Iiro Küttner, og framleiðendur Tero Kaukomaa og Jesse Fryckman (Solar films).

Frá Noregi, Norður (Nord), leikstjóri Rune Denstad Langlo, handritshöfundur Erlend Loe og framleiðandi Sigve Endresen (Motlys).

Frá Svíþjóð, Ljósár (Ljusår), leikstjóri og handritshöfundur Mikael Kristersson og framleiðandi Lisbet Gabrielsson (Lisbet Gabrielsson Film AB).

Græna ljósið sýnir allar myndirnar fimm 11.-13. september í Háskólabíói og þær verða sýndar í öllum höfuðborgum Norðurlandanna á næstu vikum. Almenningi gefst þar með í fyrsta skipti tækifæri til að sjá allar þær myndir sem hljóta tilnefningu í ár.

- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.