Innlent

Stefna að vatnsútflutningi frá Höfn

Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri Hornafjarðar, og Atli Kristjánsson hjá Rolf Johansen & Co undirrita samninginn.
Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri Hornafjarðar, og Atli Kristjánsson hjá Rolf Johansen & Co undirrita samninginn. Mynd/hornafjordur.is

„Samningurinn gerir ráð fyrir að hafin verði uppbygging á átöppunarverksmiðju fyrir vatn innan fjögurra ára,“ segir Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri Hornafjarðar um samning sveitarfélagsins við Rolf Johansen & Co ehf. sem undirritaður var á mánudaginn. Hann segir að næstu fjögur ár verði nýtt til frekari undirbúnings en stefnt er að því að átöppun hefjist innan fimm ára.

„Við bindum miklar vonir við að þetta gangi upp,“ segir Hjalti Þór. Hann segir áhættu sveitarfélagsins litla. „En ávinningurinn getur orðið umtalsverður ef allt gengur upp,“ segir hann. Hann segir sveitarfélagið hafa unnið að vatnsútflutningi í um tvö ár en markmiðið sé að auka fjölbreytni í atvinnulífi og styrkja stoðir samfélagsins.

Hann gerir ráð fyrir að verksmiðjan geti skapað fjölda starfa og segir raunhæft að reikna með allt að 20 störfum við verksmiðjuna. „Við förum núna í að undirbúa vatnsveituframkvæmdir og skipulagningu fyrir uppbygginguna,“ segir Hjalti Þór en stefnt er að því að verksmiðjan verði sem næst höfninni.

Vatnið verður tekið úr lind sem er í eigu sveitarfélagsins. „Þetta er gamalt vatnsból sem nýtt var fram til ársins 1982 en hefur ekki verið nýtt síðan þá svo við erum ekki að taka úr almenningsveitunni,“ segir Hjalti Þór. Hann segir þó nokkra vinnu eiga eftir að fara fram við vatnslindina. „Við þurfum að taka sýni úr lindinni næstu mánuði og rennslismæla hana vel en við gerum ekki ráð fyrir öðru en að þetta sé gott vatn,“ segir Hjalti Þór. - ovd




Fleiri fréttir

Sjá meira


×