Innlent

Trylltist í flugvél - átti að verða vændiskona á Íslandi

Þrír karlmenn voru í gær úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness í tengslum við meint mansalsmál. Upphaf þess má rekja til komu ungrar litháeskrar konu til landsins um síðustu helgi, en hana þurfti að binda niður í sæti flugvélar Iceland Express eftir að hún hafði veist að öðrum farþegum í vélinni.

Konan mun hafa slegið fólk og látið öllum illum látum í flugvélinni. Var hún sögð í annarlegu ástandi og talið að hún væri undir áhrifum fíknefna. Starfsfólk um borð sá sér ekki annað fært en að binda konuna niður í sæti sitt svo hún færi ekki sjálfri sér og öðrum að voða. Farþegar aðstoðuðu flugliðana við að hemja konuna. Lögreglan handtók konuna á Keflavíkurflugvelli, en flugvélin var að koma frá Varsjá í Póllandi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu fullyrti konan að það ætti að nota hana í vændi á Íslandi. Þrír litháeskir karlmenn sem búsettir eru hér á landi voru handteknir í framhaldinu og hefur málið vafið upp á sig samkvæmt heimildum fréttastofu. Sönnunarbyrði í málum sem þessum er þó sögð afar erfið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×