Innlent

Sturlu komið frá í boði Framsóknar

Fráfarandi forseti Alþingis.
Fráfarandi forseti Alþingis.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Sturla Böðvarsson, sem lætur af störfum sem forseti Alþingis í dag, hafi styrkt og aukið vægi þingsins. Til stendur að Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, verði kjörinn forseti í hans stað. Þingmenn tókust harkalega á um málið í upphafi þingfundar sem hófst klukkan hálf tvö.

Þorgerður benti á þá staðreynd að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna væri minnihlutastjórn. Hún sagði að verið væri að koma Sturlu frá og það væri gert í boði Framsóknarflokksins.

Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði að breyting á skipan forseta hefði ekkert með persónu Sturlu að gera og að embætti líkt og forseta Alþingis væru ekki einkaeign einstakra stjórnmálaflokka.

Jón Magnússon, formaður þingflokks Frjálslynda flokksins, sagðist ekki taka þátt í að lýsa vantrausti á Sturlu því hann hafi staðið sig með einstökum glæsibrag.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagðist hafa veitt því eftirtekt að starfandi formaður Sjálfstæðisflokksins hafi ekki sagt eitt einasta hlýlegt orð til þeirrar ríkisstjórnar sem ætli að taka til eftir 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði ríkisstjórninni heilla. Ekki veitti af öðru.






Tengdar fréttir

Þing kemur saman

Alþingi kemur saman eftir hádegi í fyrsta skipti eftir að ný ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var mynduð. Umtalverðar breytingar verða gerðar á nefndarskipan og nýir formenn fastanefnda kjörnir. Þá er ráðgert að þingmenn kjósi nýjan forseta í stað Sturlu Böðvarsson. Þingfundur hefst klukkan hálf tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×