Erlent

Mun snúa aftur til Hondúras

Stuðningsmenn Zelaya forseta söfnuðust saman nálægt húsi forsetans á mánudag. fréttablaðið/ap
Stuðningsmenn Zelaya forseta söfnuðust saman nálægt húsi forsetans á mánudag. fréttablaðið/ap

Forseti Hondúras, Manuel Zelaya, ætlar að snúa aftur úr útlegð á morgun og endurheimta völd í landinu. Her landsins framdi valdarán á sunnudag eftir að hæstiréttur hafði fyrirskipað það. Zelaya var þá sendur í útlegð, en hefur síðan fundað með leiðtogum annarra ríkja í Rómönsku Ameríku og Sameinuðu þjóðunum. Hann hefur hlotið mikinn stuðning þjóðar­leiðtoga, allt frá Barack Obama Bandaríkjaforseta til Hugo Chavez, forseta Venesúela. Aðalritari Sambands Ameríkjuríkja, Jose Miguel Insulza, ætlar að fylgja Zelaya aftur til Hondúras.

Herinn í Hondúras segist aðeins hafa fylgt stjórnarskrá til að fjarlægja forseta sem hefði reynt að skemma hana. Þingforsetinn og starfandi forsetinn Roberto Micheletti ætlar sér að sitja í embætti fram í janúar, þegar kjörtímabilinu lýkur, og halda kosningar í nóvember. Hann hefur hafist handa við að skipa ráðherra.

Micheletti fyrirskipaði útgöngubann í landinu á sunnudagskvöld. Mótmælendur virtu það að vettugi og þúsundir mótmæltu í höfuðborginni Tegucigalpa. Á mánudag notuðu lögreglumenn táragas og skutu plastkúlum að mótmælendum. Að sögn Zelaya særðust um 150 og voru fimmtíu handteknir. Meðal annars voru sjö erlendir blaðamenn handteknir en þeim var sleppt stuttu síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×